Icelandair tekur tvær 767 breiðþotur á leigu
Til þess að tryggja að flugáætlun Icelandair raskist sem minnst vegna kyrrsetningar Boeing 737 MAX flugvéla hefur félagið gengið frá leigu á tveimur Boeing 767 breiðþotum. Sú fyrri kemur í rekstur um miðjan apríl en sú síðari snemma í maí og verða vélarnar í rekstri út septembermánuð. Þetta kemur fram á vef Kauphallarinnar.
Um er að ræða 262 sæta flugvélar með tveimur farrýmum og eru vélarnar með afþreyingarkerfi. Þá er félagið að vinna að því að leigja þriðju vélina sem myndi bætast við flotann í sumar.
Félagið vinnur jafnframt að endurskoðun flugáætlunar sinnar fyrir sumarið 2019 í kjölfar mikilla breytinga á samkeppnisumhverfinu. Þegar Boeing 737 MAX vélarnar koma í rekstur þá hefur félagið möguleika á að auka framboð í háönn frá því sem áður var áætlað þar sem ofangreindar breiðþrotur hafa bæst í flotann.