Icelandair kaupir WOW Air
Stjórn Icelandair Group hefur gert samning um kaup á öllu hlutafé í flugfélaginu WOW air. Kaupin eru m.a. gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafundar Icelandair Group, samþykki Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar að því fram kemur í tilkynningu frá Icelandair til Kauphallar Íslands í morgun.
Félögin verða áfram rekin undir sömu vörumerkjum en sameiginleg markaðshlutdeild þeirra á markaðnum yfir Atlantshafið er um 3,8%. Með yfirtökunni skapast tækifæri til sóknar á nýja markaði og auk þess er gert ráð fyrir að einingakostnaður Icelandair Group muni lækka. Félagið verður þannig enn betur í stakk búið til þess að veita erlendum flugfélögum öfluga samkeppni á hinum alþjóðlega flugmarkaði.
„WOW air hefur á undanförnum árum byggt upp sterkt vörumerki og náð miklum árangri á mörkuðum félagsins, til og frá Íslandi og yfir Atlantshafið. Það eru mikil tækifæri til hagræðingar en félögin verða áfram rekin á eigin forsendum undir eigin vörumerkjum og flugrekstrarleyfum. Íslensk ferðaþjónusta er grunnstoð í íslensku hagkerfi og það er mikilvægt að flugsamgöngur til og frá landinu séu í traustum skorðum,“ segir Bogi Nils Bogason, starfandi forstjóri Icelandair Group, í fréttatilkynningu:
„Ég er mjög stoltur af þeim árangri og þeirri uppbyggingu sem við hjá WOW air höfum náð á undanförnum árum og er jafnframt þakklátur fyrir þær frábæru viðtökur sem við höfum fengið frá fyrsta degi. Við höfum byggt upp öflugt teymi sem hefur náð eftirtektaverðum árangri og verið brautryðjandi í lággjaldaflugi yfir Norður-Atlantshafið. Nú tekur nýr kafli við þar sem WOW air fær tækifæri til að vaxa og dafna með öflugan bakhjarl eins og Icelandair Group sem mun styrkja stoðir félagsins enn frekar í alþjóðlegri samkeppni,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air, í fréttatilkynningu.