Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Icelandair hótelið verður Park Inn by Radisson
Miðvikudagur 9. desember 2015 kl. 13:55

Icelandair hótelið verður Park Inn by Radisson

„Það gleður okkur mikið að geta tekið á móti viðskiptavinum á þetta glæsilega flugvalla-og ráðstefnuhótel sem Park Inn by Radisson og geta boðið upp á allt það sem þessi heimsþekkta hótelkeðja hefur upp á að bjóða,“ segir Bergþóra Sigurjónsdóttir hótelstjóri en Icelandair hótelið í Keflavík hefur gengið til samstarfs við Carlson Rezidor, eina stærstu hótelkeðju heims. Hótelið verður rekið undir heitinu Park Inn by Radisson Reykjavik Keflavik Airport. Hótelið var áður hluti af Icelandairhotels keðjunni.

Hótelið er vel búið 77 herbergjum og svítum og býður upp á frábæra 470m2 fundar-og ráðstefnu-aðstöðu - og er fullkomlega staðsett í miðjum bænum aðeins 5 km frá Leifsstöð. Undanfarin tvö ár hafa miklar breytingar verið gerðar á hótelinu með fjölgun herbergja í 77 og jafnframt 5 nýir fundarsalir í ýmsum stærðum, teknir í notkun en þeir taka allt að 300 manns í sæti.   Á næstu misserum verða eldri herbergi og líkamsræktaraðstaða hótelsins endurnýjuð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Carlson Rezidor hótelkeðjan er ein af stærstu hótelkeðjum í heimi með um 1400 hótel með um 220,000 herbergi í 110 löndum. Park Inn by Radisson er eitt af merkjum keðjunnar. „The Rezidor Hotel Group er eina alþjóðlega hótel-keðjan með umfangsmikinn rekstur hótela á Norðurlöndunum og er leiðandi í rekstri flugvallahótela á öllum helstu millilandaflugvöllum í Evrópu. Með opnun þessa hótels styrkjum við stöðu okkar með því að bjóða upp á fjölbreytt hótel og þannig bjóða gestum okkar upp á þjónustu-upplifun í heimsklassa,“ segir Tom Flanagan, varaforseti Rezidor Hotel Group Nordics.

Athygli vekur nafngiftin, þá sérstaklega „Reykjavik“ - en 85% af gestum eru erlendir ferðamenn og ástæðan fyrir nafninu er tenging við flugstöðina en útlendingar eru að fljúga til Reykjavíkur skv. flugmiðum. Svipað og Gardemoen í Osló sem dæmi, þar er alþjóðaflugvöllurinn í sambærilegri fjarlægð frá Osló en samt eru ferðamenn að fljúga til Oslo en ekki Gardemoen, segir í tilkynningu frá hótelinu.

Séð inn í nýja mótttöku Park Inn hótelsins í Keflavík.