Iceland opnar í Reykjanesbæ á föstudaginn
Ný verslun, Iceland, opnar við Hafnargötu 51 þar sem 10-11 var áður til húsa í Reykjanesbæ, nk. föstudag. Fyrsta Iceland verslunin á Íslandi var opnuð í Engihjalla fyrir fimm árum. Eftir opnunina í Reykjanesbæ verða verslanir Iceland orðnar sex talsins en fyrir eru verslanir Iceland staðsettar í Engihjalla, Vesturbergi, Arnarbakka, Glæsibæ og Staðarbergi.
Verslanir Iceland bjóða upp á fjölbreytt vöruúrval, íslenskt og erlent, en sérstaða verslananna eru þær fjölmörgu vörur sem fengnar eru frá Iceland Foods í Bretlandi og fást ekki í öðrum verslunum, segir í tilkynningu frá Iceland.
Sigurður Karlsson, framkvæmdastjóri matvörusviðs Basko, en félagið á og rekur meðal annars verslanir Iceland, segir að áður en árinu lýkur verði Iceland verslanirnar orðnar sjö talsins.
„Í byrjun desember ætlum við einnig að opna Iceland verslun á Kaupangi á Akureyri og fyrirhugaðar eru fleiri opnanir á næstu misserum. Hugmyndin er að útvíkka og stækka vörumerkið Iceland en nýju verslanirnar hafa fengið mjög góðar viðtökur enda Iceland þekkt fyrir gott vöruúrval, langan opnunartíma og hagstæð verð“.