Hús allra Grindvíkinga bókað fram á vetur
– Geo Hotel Grindavík er fyrsta hótelið sem opnar í Grindavíkurbæ
Geo Hotel Grindavík opnaði á dögunum í sögufrægu húsi þar sem félagsheimilið Festi var áður. Þar eru 36 tveggja manna herbergi og byrjað var að bóka gesti í febrúar og langt fram á vetur. Hótelstjórinn Lóa Bergljót Þorsteinsdóttir segir kraftaverk hafa gerst á stuttum tíma við að koma hótelinu á legg og hún leggur áherslu á að sögunnar vegna sé húsið sameign Grindvíkinga, sem eðlilega hafi verið forvitnir á framkvæmdatímabilinu.
Hvernig hefur gengið að koma þessu öllu á legg?
Það hefur gengið ótrúlega vel. Ég er bara búin að taka þátt í þessu sjálf síðan í febrúar, en hér hafa kraftaverkin gerst síðan þá. Ótrúlegt hvað búið er að gera á þessum tíma.
Þetta er fyrsta hótelið í Grindavíkurbæ. Hver er markhópurinn ykkar?
Ég held að allavega til að byrja með þá verði þetta dæmigert ferðamannahótel, þótt það verði alltaf í bland og við viljum endilega fá Íslendinga hingað. Við erum þegar búin að hýsa einn hóp Íslendina sem voru nokkurs konar tilraunadýr hjá okkur. Það gekk ótrúlega vel, en fyrir túristana þá er þetta bara inngangurinn inn í landið. Ótrúlega margt að sjá og upplifa hér á þessum slóðum.
Nafn hótelsins, Geo Hotel, er þetta einhvern tenging við Geopark, Jarðvang?
Já, við sannarlega hugsuðum til þess og til svæðisins og þess sem það hefur upp á bjóða. Við horfðum á hraunið, eldfjöllin, alla jarðfræðina sem er hér í kringum okkur og reynum að tengja okkur við það.
Hvernig hefur gengið að bóka, eruð þið byrjuð á því?
Já, það byrjaði strax í febrúar. Það var tekið rosalega vel, aðallega verið bókað frá ferðaskrifstofum en einnig einstaklingum sem hafa bókað í gegnum netið og eru að ferðast á eigin vegum.
Og koma ferðalangarnir langt að?
Þeir koma víðs vegar að. Rosalega fjölbreytt þjóðerni sem er að sækja okkur heim. Svona yfir sumarið kannski meira Evrópubúar en svo erum við t.d. komin með nokkra litla hópa af Japönum sem ætla að koma hingað næsta vetur að skoða norðurljósin. Einn þeirra spurði meira að segja hvort það væri möguleiki á að bæjaryfirvöld í Grindavík myndu slökkva á götuljósunum fyrir þá. Ég sagði þeim að þeir þyrftu ekki að fara langt til að komast í myrkrið og gætu notið.
Hvernig hafið þið látið vita af ykkur?
Fyrst og fremst í gegnum ferðaheildsala og ferðaskrifstofur, bæði innanlands og erlendis. Láta þá vita af okkur og leyfa þeim að fylgjast með því sem við höfum verið að gera; senda þeim myndir og kynningarefni og svo í gegnum síður eins og booking.com og expedia.com.
Hvaða þjónustu sérhæfið þið ykkur í?
Til að byrja með ætlum við að vera fyrst og fremst fínt hótel með góðan morgunmat. Við erum samt sem áður með fullbúið eldhús og það mun örugglega koma að því seinna að hér verði rekinn veitingastaður frá morgni til kvölds og húsið mikið notað.
Hafa bæjarbúar í Grindavík ekki verið forvitnir um framkvæmdir?
Alveg ótrúlega forvitnir. Hér er held ég aðal rúnturinn í bænum og ekið löturhægt í kringum húsið. Einn og einn hefur hætt sér inn til að spyrja hvort óhætt sé að kíkja. Það eru allir auðvitað hjartanlega velkomnir og byrjum í dag með þessu opna húsi. Þetta hús á bara að vera hús okkar allra og hér verður kannski smá bar og kaffihús.
Hvernig tilfinning er það að hefja rekstur hótels í svona sögufrægu húsi?
Mér finnst það ótrúlega skemmtilegt. Gaman að þetta hús skuli vera notað eins og t.d. listaverkið sem var í innganginum. Við leyfðum því að halda sér og mér finnst það alveg ótrúlega skemmtilegt. Og ég held að bæjarbúum þyki það líka.