Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Hugverkastofan velur Issi fish & chips vörumerki desembermánaðar
Í síðasta mánuði sá Issi fish & chips um að elda fyrir Grindvíkinga fyrir hönd samtakanna World Central Kitchen sem fæða íbúa hamfarasvæða víðs vegar um heim. Hér er Issi ásamt fulltrúa World Central Kitchen og Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, við tilefnið. Mynd/Facebook-síða Issi fish & chips
Föstudagur 15. desember 2023 kl. 14:41

Hugverkastofan velur Issi fish & chips vörumerki desembermánaðar

Er celeb í Suður-Kóreu

Á Fitjum í Njarðvík er að finna besta Fish & Chips stað landsins samkvæmt Google. Í einföldu gámahúsi við Reykjanesbrautina leynist ISSI FISH & CHIPS sem heimamenn og ferðamenn sækja til að kæta bragðlaukana. Þar stendur Jóhann Issi Hallgrímsson með kúluhatt yfir hátæknivæddum og nettengdum djúpsteikingarpottunum og djúpsteikir þorsk og gellur frá Þorbirni í Grindavík og er orðinn nánast heimsfrægur fyrir. 

Issi sótti nýlega um skráningu á orð- og myndmerki hjá Hugverkastofunni og starfsfólk hennar hefur nú valið það vörumerki desembermánaðar

Staðurinn er með 4,9 í einkunn af 5 mögulegum á Google maps og fjölmargir gestir hans segja að Issi bjóði upp á besta Fish & Chips sem þau hafi smakkað. Issi segir að bresk hjón hafi nýlega sagt við sig að fiskurinn hans hafi verið „worth the trip to Iceland“. Meðmælin verða varla mikið betri en það. Staðurinn hefur einnig fengið heilmikla umfjöllun í erlendum fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og fjölmargir viðskiptavinir leita staðinn sérstaklega uppi eftir að hafa séð umfjöllun um hann í erlendum miðlum. Issi segir að það hafi orðið sprenging í viðskiptum eftir að Tik-Tok stjarna fjallaði um staðinn og þá hafi honum verið sagt að hann sé frægur í Suður-Kóreu, eftir að áhrifavaldur þar í landi fjallaði um staðinn og hann sitji gjarna fyrir á sjálfum með fólki frá Suður-Kóreu sem komi til að bragða þennan einstaka fisk og hitta þennan fræga mann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

En af hverju sóttu þau um skráningu á vörumerkinu? Issi segir að það sé vegna þess að hann viti ekkert hverjir komi í vagninn og hann vilji ekki að aðrir geti auðveldlega stolið merkinu og hugmyndinni. Hann sé mjög ánægður með merkið og margir hönnuðir hafi hælt því fyrir að vera stílhreint og einfalt en þó koma því vel á framfæri hvaða þjónustu það standi  fyrir. Það sem hafi ýtt sérstaklega á þau nú sé að rekstraaðilar í Singapore hafi áhuga á að opna staði undir merki ISSI FISH & CHIPS þar í landi og hafi m.a. nýlega boðið þeim hjónum til Singapore til að kanna aðstæður. Það hafi því verið tími til kominn að tryggja sér eignarrétt á vörumerkinu og fram undan sé að huga að skráningum á erlendum mörkuðum.

Issi sótti um skráningu á orð- og myndmerkinu ISSI FISH & CHIPS hjá Hugverkastofunni í mars og það var skráð í nóvember, m.a. fyrir fisk, sósur og veitingaþjónustu í flokkum 29, 30 og 43.

Höfundur firmamerkisins Issi fish & chips er Jóhann Páll Kristbjörnsson, blaðamaður og hönnuður hjá Víkurfréttum.

Vörumerki mánaðarins er nýtt framtak hjá Hugverkastofunni, unnið eftir fyrirmynd annarra norrænna hugverkastofa. Markmiðið með því að velja eitt vörumerki til umfjöllunar í hverjum mánuði er að vekja athygli á mikilvægi vörumerkjaskráninga og kynna starfsemi Hugverkastofunnar. Starfsfólk stofnunarinnar kýs vörumerki mánaðarins úr hópi nýrra og nýendurnýjaðra íslenskra vörumerkja sem standa fyrir íslenska vöru og/eða þjónustu. Vörumerki mánaðarins er vörumerki með skýr sérkenni og gott aðgreiningarhæfi, það má ekki vera lýsandi né má vera hætta á að því verði ruglað við önnur merki.


Lengri útgáfu greinarinnar er að finna á vef Hugverkastofunnar.