Hugmynd sem varð til við eldhúsborðið á leið í sölu um allan heim
„Þetta er hugmynd sem ég hélt að hefði alltaf verið til en reyndist svo ekki vera til. Þessi hugmynd er eina sinnar tegundar í heiminum og jafnframt sú eina sem er í notkun,“ segir Guðrún Sigríður Laukka, frumkvöðull á Ásbrú, sem fyrir sex árum fór í byggingavöruverslun að leita að gifstöppum sem hún ætlaði að nota til að laga skemmdir á gifsvegg. Hún komst að því að gifstapparnir væru ekki til og hefðu aldrei verið framleiddir. Hún fór því heim til sín og settist við eldhúsborðið og hannaði gifstappana. Í dag er finnska fyrirtækið Rakennuskemia (RK) komið með einkasöluleyfi á hugmynd Guðrúnar um allan heim.
Guðrún segist hafa byrjað á að móta hugmynd sína í krít og fór síðan með hana í gegnum allt það ferli sem þarf til að fá einkaleyfi. Hún var komin með einkaleyfið í hendurnar í ársbyrjun 2007 og á miðju ári er varan komin á markað og í hillur í BYKO og Húsasmiðjunni. Hún segist hafa átt gott samstarf við þessar verslanir og átt við þær samráð um stærðir og gerðir af gifstöppum. Tapparnir eru fáanlegir í stærðum frá 12-84 millimetrar.
Markaðssetningin er alls ekki auðveld og hefur Guðrún sent út 9000 tölvupósta til að kynna hugmyndina sína en hefur aðeins fengið svör frá tíu aðilum, sem mark var takandi á. Hún segir verkefnið hafa verið tröppugang og erfitt. Lítið um styrki. Hún hafi séð um þetta allt sjálf og á eigin ábyrgð. Það séu mörg ljón á veginum í svona vegferð. Hún hafi hins vegar kynnst mörgu góðu fólki en einnig séu margir sem hafi gefist upp.
„Það eru margir búnir að segja: Heyrðu Rúna mín. Farðu nú að gera eitthvað annað. Farðu að koma þér út á vinnumarkaðinn. Reyndu að fara að vinna,“ segir Guðrún þegar hún lýsir þeim viðbrögðum sem hún hefur verið að fá frá þeim sem ekki hafa haft trú á verkefninu.
Guðrún flutti til Frakklands í hálft ár til að halda áfram að vinna hugmynd sinni brautargengi. Þar var henni hafnað á þeirri forsendu að hún væri frá Íslandi. Þaðan fór hún til Svíþjóðar og vann þar að hugmyndinni áfram í eitt ár. Það var síðan í janúar á þessu ári sem finnska fyrirtækið Rakennuskemia setti sig í samband við Guðrúnu og vildi fá söluréttinn á töppunum á heimsvísu. Hún ákvað að ganga til samstarfs við RK því það hefur yfir að ráða öflugri markaðsdeild. Þá hafa allar umbúðir, sölustandur og tengdar vörur fengið samræmt útlit. Gifstapparnir hafa hingað til verið framleiddir í Kína en nú er unnið að því að finna framleiðanda nær Evrópumarkaði.
Þó svo Guðrún hafi komið hugmynd sinni í ferli hjá þessu finnska fyrirtæki er hún alls ekki sest í helgan stein. Nú vinnur hún að tveimur öðrum hugmyndum í frumkvöðlasetrinu á Ásbrú, hugmyndum sem eru líklegar til að ná langt.