Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

HS Orka og e1 í samstarf um hleðslulausnir
Jóhann Snorri Sigurbergsson, deildarstjóri viðskiptaþróunar HS Orku, og Hafrún Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri e1, við nýlegar hleðslustöðvar HS Orku í bílastæðahúsi Kringlunnar í Reykjavík.
Fimmtudagur 8. febrúar 2024 kl. 07:45

HS Orka og e1 í samstarf um hleðslulausnir

HS Orka og íslenska sprotafyrirtækið e1 hafa tekið upp samstarf um hleðslulausnir e1 sem gera viðskiptavinum HS Orku kleift að nota hleðslustöðvar fyrirtækisins með e1 appinu.

HS Orka hóf innreið sína á hleðslustöðvamarkaðinn fyrir réttu ári síðan. Megináhersla fyrirtækisins hefur verið á hleðslulausnir sem henta fyrirtækjum og einstaklingum auk þess sem settar hafa verið upp almennar hleðslustöðvar, t.d. í Kringlunni og við Hótel Geysi í Haukadal, og mun slíkum stöðvum fjölga á næstunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hægt að leigja eða kaupa stöðvar

„Lausnum okkar á hleðslustöðvamarkaðnum hefur verið mjög vel tekið og sú einfalda og hagkvæma nálgun sem við höfum beitt hugnast fyrirtækjum sérstaklega vel. Þá hafa einstaklingar og fjölbýlishús einnig tekið mjög vel í lausnirnar okkar. Við ýmist leigjum frá okkur stöðvarnar, og sjáum þá um alla þjónustu, eða seljum þær til viðskiptavina okkar“, segir Jóhann Snorri Sigurbergsson, deildarstjóri viðskiptaþróunar hjá HS Orku, en hann er afar ánægður með applausnina frá e1.

Einföld og aðgengileg lausn

„Nú þegar rafbílavæðingin á Íslandi er á mikilli siglingu hafa fjölmörg fyrirtæki, bæði stór og smá, skráð sig í viðskipti hjá HS Orku. Rekstrarlausnir okkar eru að mælast mjög vel fyrir og með e1 appinu, sem flestir rafbílaeigendur eru með í símanum sínum, er mjög einfalt að nota stöðvarnar. Mörg fyrirtækjanna hafa sett upp hleðslustöðvar við starfsemi sína fyrir starfsfólk og viðskiptavini og eftir því sem rafbílum fjölgar mun þörfin bara aukast”, segir Jóhann Snorri.

Hafrún Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri e1, fagnar samstarfinu við HS Orku: „Við erum deilihagkerfi eða svokallað markaðstorg fyrir allar hleðslustöðvar þar sem notendur geta fundið hleðslustöðvar, hlaðið bílinn og greitt fyrir á einfaldan máta. Lausnin okkar er nú þegar í notkun hjá fjölda fyrirtækja og húsfélaga og bjóðum við öllum eigendum hleðslustöðva að tengja þær við e1-appið“.

Íslenskt skiptir máli

Jóhann Snorri bendir jafnframt á að fyrir HS Orku hafi vegið þungt að skipta við íslenskt fyrirtæki um hugbúnaðarlausnir: „Þegar við hjá HS Orku vorum að velja samstarfsaðila með hugbúnaðarlausnir fyrir hleðslustöðvarnar okkar lögðum við allt kapp á að styðja við íslenska sprotastarfsemi á borð við e1. Það eru fjölmargar lausnir í boði á á heimsvísu en að vera í samstarfi við íslenskt fyrirtæki, sem býður upp á jafn samkeppnishæfa lausn og e1 gerir, einfaldar lífið fyrir viðskiptavinina okkar. Appið er aðgengilegt í mörgum hleðslustöðvum og það er hagur allra að fækka þeim öppum sem rafbílaeigendur þurfa að verða sér út um til að hafa aðgang að hleðslustöðvum víðs vegar um landið.”