Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

HS ORKA: Aukum vinnsluna án þess að taka meira upp úr auðlindinni
Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku.
Sunnudagur 3. febrúar 2019 kl. 09:00

HS ORKA: Aukum vinnsluna án þess að taka meira upp úr auðlindinni

Orkuvinnsla í Reykjanesvirkjun hrapaði mikið árin 2016 og 2017 en er komin í fullt afl og framundan er meiri framleiðsla án þess að taka meira úr jörðinni. „Við erum í dag mjög bjartsýn á langvarandi, stöðuga, endurnýjanlega vinnslu á Reykjanesi,“ segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku.

 
Við erum í dag mjög bjartsýn á langvarandi, stöðuga, endurnýjanlega vinnslu á Reykjanesi, eins og sagan hefur reyndar sýnt í Svartsengi, þar sem reynslan er orðin yfir fjörutíu ára. Við ætlum að gera enn betur en það því bæði á Reykjanesi og í Svartsengi eru núna uppi áform um að auka framleiðslu án þess að taka meira upp úr jörðinni, segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku en fyrirtækið gekk í gegnum tímabundna erfiðleika í raforkuvinnslu í Reykjanesvirkjun 2016 og 2017. Orkuvinnsla datt um tíma niður í 60% sem var verulegt áhyggjuefni. 
 
Þið voruð að eiga við  tímabundna erfiðleika í vinnslunni á Reykjanesvirkjun, hvernig hefur gengið að vinna úr þeim?
 
Staðan er mjög góð núna. Þetta voru tímabundnir erfiðleikar, sérstaklega á árunum 2016 og 2017. Það er rétt að hafa í huga að Reykjanesvirkjun var tekin í notkun árið 2006 og það tekur tíma að læra á nýtt jarðhitasvæði, hvernig það bregst við vinnslu og hvernig því er best fyrirkomið. Á árunum 2013, 2014 fór að bera á aðeins minnkaðri vinnslu á Reykjanesi. Virkjunin er hundrað megavött og sumarið 2016 var hún komin niður í rúmlega áttatíu megavött og þá urðum við fyrir áfalli. Vinnslan datt niður í rúm sextíu megavött, sem var mikið og þungt högg fyrir okkur. Við réðum ráðum okkar og fengum til aðstoðar við okkur innlenda sérfræðinga til að greina málið í hörgul og hófum mikla vinnu, sem allir starfsmenn HS Orku komu að með einum eða öðrum hætti, með það að markmiði að auka vinnsluna aftur. Í stuttu máli þá var vinnslan komin aftur upp fyrir áttatíu megavött um ári síðar eða haustið 2017, eins og hún hafði verið áður. Svo hélt hún áfram að aukast, þangað til að haustið 2018 var hún komin í fullt afl og meira að segja núna, fyrir nýliðin áramót, komin aðeins umfram það. Þannig að vélarnar hafa verið að keyra svona aðeins umfram hámarksálag, ef svo má segja, eða hámarksgetu síðan seint á síðasta ári. Þetta hefur verið gert án þess að bora nýjar holur eða auka upptektina úr svæðinu. Þetta snýst um stýringu á vatnsborði jarðhitageymisins. Við höfum einfaldlega lært mjög mikið í gegnum þessar hremmingar og það er enginn skaði skeður á auðlindinni. Hitagjafinn, heita bergið, er til staðar. Vökvinn er til staðar. Þetta er meira spurning um það hvernig við högum vinnslunni þannig að svona megi verða til langrar framtíðar. 
 
Reykjanesvirkjun er hundrað megavött. Við ætlum að bæta við einni þrjátíu megavatta einingu og fara þá upp í hundrað og þrjátíu megavött. Fyrir því eru öll leyfi til staðar. Það ætlum við að gera án þess að taka meira upp úr borholunum. Við ætlum að nýta betur það sem kemur til yfirborðs í dag. Svipað ætlum við að gera í Svartsengi, þar sem elstu einingarnar í vinnslu eru að verða yfir fjörutíu ára gamlar. Við ætlum að taka út elstu einingarnar sem eru frá þrjátíu og upp í fjörutíu ára gamlar, setja eina nýja einingu í staðinn sem mun tvöfalda afkastagetu gömlu vélanna, með sömu auðlindanýtinguna. Þá bætast við um það bil tíu megavött við vinnsluna í Svartsengi, aftur, án þess að taka meira upp úr jörðinni. 
 
Hvað fer Svartsengi þá í afli?
 
Svartsengi er í dag sjötíu og fjögur megavött og fer þá í um áttatíu og fjögur. Reykjanesvirkjun fer úr hundrað í hundrað og þrjátíu. Það er næg eftirspurn eftir þessu rafmagni.
 
Hvað er það sem gerðist? Eru þetta ný tæki eða eruð þið að fá meiri þekkingu á vinnslunni?
 
Þetta er sambland af hvoru tveggja. Það er til betri vélbúnaður í dag til að nýta breiðara þrýstisvið, ef svo má segja. Við höfum líka lært mjög vel á það hvernig skynsamlegast er að nýta það sem upp úr jörðinni kemur. Við köllum það jarðsjó, það er vökvinn sem er í Bláa lóninu. Það sem upp úr holunum kemur er annars vegar gufa og hins vegar jarðsjór. Gufan er notuð inn á vélasamstæðurnar og jarðsjórinn er svo jafnvel látinn sjóða meira niður til að mynda lágþrýstigufu, til þess að framleiða meira rafmagn eða með öðrum hætti. Þannig að þetta er sambland af aukinni þekkingu og reynslu og framförum í búnaði. Okkur þykir þetta gott. Við erum stolt af því að geta byggt á þessari fjörutíu ára reynslu og horft til langrar framtíðar, miklu meira en fjörutíu ár fram í tímann. Að geta aukið vinnsluna án þess að taka meira upp úr auðlindinni. 
 

Raforkuframleiðsla í sögulegu hámarki

 

Samfélagið þarf meira rafmagn og það verða þrengingar, ef ekki verður brugðist við með því að auka við framleiðslu

 
Eftir viðsnúninginn til hins betra á Reykjanesi og smávægilegar viðbætur í Svartsengi án þess að bæta við vélbúnaði er raforkuframleiðsla HS Orku í dag í sögulegu hámarki. Hún hefur aldrei verið meiri og það hefur gerst án þess að hafa bætt við vélum að sögn Ásgeirs Margeirssonar.
 
„Hvað raforkumarkaðinn varðar þá er staðan búin að vera þannig í nokkur ár að rafmagn hefur verið svona um það bil uppselt á Íslandi. Það er til lítið rafmagn til aukinnar notkunar. Stærri notendur, sem hafa viljað töluvert mikið rafmagn, hafa sumir hverjir þurft að hverfa frá af því það hefur ekki verið til rafmagn fyrir þá, hvorki hjá okkur né öðrum. Við erum nú mest að horfa til þess sem við köllum almenna markaðinn, heimili, venjuleg fyrirtæki og þjónusta í landinu, þ.e.a.s. ekki stóriðjumarkaðinn, þó við sinnum honum nú líka. Stóriðjumarkaðurinn tekur um áttatíu prósent af rafmagni landsins í dag og almenni markaðurinn um tuttugu prósent.“ 
 

Vantar 15 megavött á ári næstu 15– 20 ár

 
Ásgeir segir að á vegum Orkustofnunar gefi Orkuspárnefnd út raforkuspá, þar sem reynt er að horfa fram í tímann, hversu mikið rafmagn þurfi að vera til reiðu í landinu í framtíðinni. 
„Orkuspárnefnd gerir ráð fyrir því að á hverju ári, næstu fimmtán, tuttugu árin og jafnvel lengur, þurfi að bætast við framleiðslugetu upp á að jafnaði um fimmtán megavött á ári. Það tekur mjög langan tíma að undirbúa hvert og eitt af þessum verkefnum þannig ef við horfum bara tíu til fimmtán ár fram í tímann þá þarf hundrað og fimmtíu megavött í viðbót, sem er nokkuð mikil aukning. Þá er ekki verið að tala um kísilver eða gagnaver, jafnvel ekki einu sinni rafvæðingu í samgöngum, rafbílana. Það er stundum svolítið gaman að setja þetta í samhengi við hina frægu, óformlegu byggingakranavísitölu. Það er svo mikið af byggingakrönum í landinu. Allt sem þeir eru að gera leiðir af sér rafmagnsnotkun, alls staðar. Samfélagið þarf meira rafmagn og það verða þrengingar, ef ekki verður brugðist við með því að auka við framleiðslu. Við ætlum að taka þátt í því til þess að sinna þörfum samfélagins.“

 

Miklir möguleikar í Grindavík

 
Hvernig sjáið þið enn frekari virkjun og  hvernig ætlið þið að ná í meiri orku næstu áratugi?
 
Það eru í raun og veru til þrjár leiðir. Það er í jarðvarma, vatnsafli og vindorku. Í jarðvarmanum er það þá fyrst þessi umrædda stækkun, um þrjátíu megavött, á Reykjanesi og lítil stækkun með bættum vélbúnaði í Svartsengi. Við sjáum svo fram á nýtingu auðlindarinnar í Eldvörpum líka. Það er vissulega afar viðkvæmt mál en það eru allar heimildir gefnar og öll leyfi til fyrir rannsóknarboranir í Eldvörpum. Við ætlum að rannsaka þá auðlind betur en gert hefur verið. En það eru líka allar líkur á því að verði sú auðlind nýtt, þá verði ekki reist orkuver í Eldvörpum sjálfum, heldur töluvert langt frá. Jafnvel nær suðurströndinni, fyrir vestan Grindavík, þar sem virkjun gæti verið reist með svipuðum hætti og á Reykjanesi, þar sem vélar eru sjókældar. Þar verður til volgur sjór til fiskeldisnota, eins og gert er á Reykjanesi. Á þessu svæði er einmitt mjög mikið um fiskeldi. Þar verður hugsanlega einnig unnin sú viðbót sem þarf í heitavatns framleiðslunni fyrir byggðirnar. Það gæti komið þaðan. Þetta eru verkefni á könnunarstigi. Síðan sjáum við fyrir okkur hugsanlega frekari aukningu á Reykjanesi en við erum með leyfi til þess að stækka þá virkjun í hundrað og áttatíu megavött. Þar kemur inn í myndina fræg vélasamstaða sem er búin að vera til allnokkuð lengi. Hún stendur inni á gólfi á Reykjanesi. Það hefur ekki verið til gufa fyrir þá vél ennþá en það sem við höfum verið að gera undanfarið og erum að gera í dag, ásamt með prófunum á djúpborunarholunni sem eru framundan á þessu ári, þá kunna að vakna möguleikar á að nýta þá vél á Reykjanesi, þannig að við fullnýtum þá heimildir okkar til orkuvinnslu á Reykjanesi.
 
Þannig að hún verði notuð í tengslum við djúpborunina?
 
„Það er hugsanlegt. Við vitum það ekki alveg ennþá. Það fer eftir því hvað holan gefur og hvers konar efnafræði, hitastig og þrýsting er um að ræða. En það gæti farið svo, já. Við erum þess fullviss um að vélin verði notuð þó síðar verði og annars staðar.“
 
Ásgeir segir að á sínum tíma hafi verið talað um fimmtíu megavatta raforkuvinnslu í Eldvörpum en ekki sé verið að horfa til þess. 
 
„Við erum að horfa til þrjátíu megavatta. Það er ein hola í Eldvörpum nú þegar. Hún var boruð árið 1983. Hún er orðin býsna gömul. Það styttist í fertugt. Hún gæti gefið svona sex til átta megavött, sú hola. Það er búið að prófa hana aftur nýlega. Við teljum að, með því að bora á Eldvarpa svæðinu, verði hægt að nýta þrjátíu megavött.“
 
Verða þá miklar byggingarframkvæmdir á svæðinu?
 
„Ekki á Eldvörpum sjálfum, nei. Það þarf vissulega borteiga og að bora, en borteiga er í sjálfu sér hægt að fjarlægja aftur. En það yrðu þá gufulagnir, þær gætu hugsanlega að einhverju leyti verið neðanjarðar, til dæmis ofan í vegi, sjást ekki á yfirborði og leitt í burtu frá svæðinu. Það er mjög stíft horft til þess að hreyfa ekki við gígaröðinni í Eldvörpum og meira að segja frekar að reyna að snúa við þeirri þróun sem þar er, þar sem að ágangur gangandi fólks er farinn að setja mark sitt á gígaröðina. Mosi skemmist og gönguleiðir traðkast og þess háttar því það er frjálst aðgengi þarna um.“


 

Þurfum að finna ný vatnsból

 
Nýlega hefur verið aukið við heitavatnsframleiðslu hjá HS Orku og Ásgeir Margeirsson segir að finna þurfi ný vatnsból fyrir byggðirnar á Suðurnesjum. „Við erum að horfa til þess hvar og hvenær við þurfum að auka hana enn frekar því að byggðirnar á Suðurnesjum stækka svo hratt.
 
Við erum í fyrsta lagi núna, í samstarfi við sveitarfélögin, að horfa til þess að það þurfi að finna ný vatnsból fyrir byggðirnar á Suðurnesjum. Það er verið að vinna að því verkefni. Samhliða þarf einnig að kortleggja til að geta ákveðið síðar hvar og hvernig við ætlum að framleiða meira heitt vatn. Það má búast við því að eftir svona fimm ár eða rúmlega það, örugglega innan tíu ára, þá þurfi að vera til meiri framleiðslugeta á hitaveituvatni. Við þurfum þá að hafa varmagjafann til þess og ferskvatnið sem er hitað upp. Það er í dag verið að skoða nokkra möguleika á því,“ segir Ásgeir.

Texti: Páll Ketilsson // Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson og úr safni Víkurfrétta.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024