Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Hreyfing og Blue Lagoon Spa opna heilsulind við Glæsibæ um áramót
Sunnudagur 7. október 2007 kl. 20:12

Hreyfing og Blue Lagoon Spa opna heilsulind við Glæsibæ um áramót

Heilsuræktarstöðin Hreyfing og Blue Lagoon Spa munu í lok árs opna sameiginlega heilsulind í nýju húsnæði við Glæsibæ í Reykjavík. Hún verður fyrsta heilsulind sinnar tegundar í heiminum en fram til þessa hafa spa-meðferðir með einstökum virkum efnum Bláa lónsins einungis verið í boði í Bláa lóninu í Grindavík. Til stendur að fleiri Blue Lagoon Spa heilsulindir verði opnaðar erlendis á næstu árum.

Hjá Hreyfingu og Blue Lagoon Spa verður boðið upp á ýmsar nýjungar og meðferðir sem ekki hafa verið í boði hér á landi áður. Má þar t.d. nefna fljótandi djúpslökun þar sem slökunin er slík að 50 mínútur eru taldar jafnast á við allt að 8 tíma svefn. Í nýju stöðinni verða endurnærandi spa-meðferðir með Blue Lagoon vörum í boði. Jákvæð áhrif Bláa Lónsins á húðina eru vel þekkt en nýlegar rannsóknir hafa sýnt að náttúruleg virk hráefni Bláa lónsins, kísill og þörungar, vinna gegn öldrunareinkennum.

Hámarksfjöldi viðskiptavina verður takmarkaður. Húsnæði Hreyfingar og Blue Lagoon Spa verður rúmlega 3.300 fermetrar að stærð sem er tvöfalt stærra en núverandi húsnæði Hreyfingar í Faxafeni. Teiknistofan á Óðinstorgi teiknaði húsið, VA arkitektar sáu um hönnun innanhúss og aðalverktaki við byggingu er Íslenskir aðalverktakar. Við hönnun spa-svæðisins er áhersla lögð á að skapa tengingu við náttúrulegt umhverfi Bláa lónsins.  Gert er ráð fyrir að húsið verði afhent Hreyfingu 1. desember og að Hreyfing og Blue Lagoon Spa taki til starfa í nýju húsnæði í lok ársins.

„Það er afar spennandi verkefni að þróa nýja heilsulind frá grunni, en þar hefur áratuga þekking og reynsla okkar af heilsurækt nýst vel. Með því að sameina Hreyfingu og Blue Lagoon Spa undir einu þaki skapast fjölmörg tækifæri til fjölbreyttrar þjónustu í fallegu umhverfi þar sem fólk getur ræktað bæði líkama og sál,“ segir Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar.

Í heilsulindinni verður veitingaaðstaða þar sem boðið verður upp á úrval hollra veitinga.  Á skjólgóðu útisvæði verða heitir pottar og gufuböð og nálægðin við Laugardalinn býður upp á ýmsa útivistarmöguleika.

Anna G. Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri innlendrar starfsemi Bláa Lónsins hf., og stjórnarformaður Hreyfingar segir opnun Hreyfingar og Blue Lagoon spa í Reykjavík vera bæði skemmtilegt og mikilvægt skref. „Fyrirhugað er að opna Blue Lagoon Spa staði í fleiri borgum. Það er því ákaflega jákvætt og mikilvægt vaxtarskref að fyrsti Blue Lagoon Spa staðurinn sé staðsettur í Reykjavík,“ segir Anna.

Heilsuræktarstöðin Hreyfing var stofnuð 1998 og er dótturfélag Bláa Lónsins hf. Framkvæmdastjóri Hreyfingar er Ágústa Johnson en hún hefur rúmlega 20 ára reynslu af rekstri heilsuræktarstöðva.

Hægt má sjá þrívíddamyndir af heilsulindinni eins og hún mun líta út, www.hreyfing.is/nyhreyfing/

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024