HP heim til þín
Samhæfni í Reykjanesbæ ásamt öðrum umboðsaðilum HP á Íslandi kynna nú skemmtilega nýjung sem þeir kalla „HP heim til þín.“ Um er að ræða einkaleigu á far- eða borðtölvum í 12, 24 eða 36 mánuði. Að samningstíma loknum er svo hægt að kaupa viðkomandi tölvu sem fók hefur tekið á einkaleigu.
Andri Örn Víðisson, verslunarstjóri Samhæfni í Reykjanesbæ, sagði í samtali við Víkurfréttir að þessi nýbreytni hefði fyrst farið almennilega af stað hjá Samhæfni fyrir um þremur vikum og hafi þegar gefið góða raun. „Þetta er tilvalið fyrir þá sem vilja vera með það nýjasta í tækninni, námsmenn og marga aðra. Hægt er að vera með einkaleigusamning upp á 36 mánuði en á 12 mánaða fresti verður hægt að skipta um tölvu og fá það nýjasta sem verður í boði á markaðnum hverju sinni,“ sagði Andri.
Tilboðin eru ekki ósvipuð flugeldapökkum björgunarsveitanna, lítill, miðstærð og stór og er þá átt við gæði tölvunnar í hverju tilboði fyrir sig. Þegar lengri reynsla verður komin á þetta nýja fyrirkomulag hjá Samhæfni og öðrum umboðsaðilum HP má gera ráð fyrir því að það opnist nýr markaður með notaðar tölvur. „Það gæti orðið athyglisvert og hér gæti skapast smá svona bílasölustemmning þegar fólk fer að kaupa af okkur notaðar tölvur,“ sagði Andri en það er ekki skilyrði í samningunum að fólk kaupi tölvurnar að samningi loknum. Kaupverðið í samningslok verður í kringum 20-30 þúsund krónur.
Þess má geta að þeir sem kjósa að nýta sér þennan möguleika hjá Samhæfni fá búnaðinn sendan heim til sín og hann settur upp þeim að kostnaðarlausu.
Hægt er að kynna sér málið nánar á www.samhaefni.is
VF-mynd/ [email protected] – Andri Örn Víðisson, verslunarstjóri t.h. og Guðni Söring, verkstæðisstjóri t.v.