Hótel lækningalindar Bláa lónsins stækkað
Stækkun á Bláa lóninu Lækningalind lauk á dögunum en hún var fyrst tekin í notkun árið 2005. Hluti af lækningalindinni er hótel sem nú hefur hlotið heitið Silica Hótel. Herbergjum þar hefur verið fjölgað úr 15 í 35 auk þess sem eldri herbergi voru endurgerð. Að sögn Magneu Guðmundsdóttur, upplýsingafulltrúa Bláa lónsins, voru breytingar einnig gerðar á sameiginlegum svæðum þar sem áhersla var lögð á að skapa hlýlegt og fallegt umhverfi. „Við stækkun og endurgerð hótelsins var áhersla lögð á að viðhalda tengingu við náttúrulegt umhverfi byggingarinnar sem er umlukin hrauni. Fallegt útsýni er úr öllum herbergjum hótelsins auk þess sem lítil verönd er við öll herbergin,“ segir hún.
Hótelið er vel bókað og segir Magnea nálægðina við Bláa Lónið tvímælalaust veita hótelinu sérstöðu en gestir þess hafa aðgang að sér lóni og hefur það fallið að í góðan jarðveg. Flestir gestanna eru almennir ferðamenn auk gesta sem þar njóta meðferðar. „Við fáum mjög jákvæð viðbrögð frá gestum hótelsins sem njóta þess að dvelja í nálægð við Bláa Lónið og margir þeirra nýta sér einnig aðra afþreyingu á Reykjanesi. Stórbrotin náttúra heillar gesti og þá er jákvætt að geta sagt frá því að við erum staðsett í Reykjanes UNESCO Geopark,“ segir Magnea.
Vestan við Bláa lónið rís nú nýtt spa upplifunarsvæði og 60 herbergja lúxus hótel. Nýja hótelið er í hluti af stærra verkefni sem felur meðal annars í sér endurhönnun og stækkun Bláa Lónsins. Þeim áfanga lauk í upphafi þessa árs þegar lónið var stækkað úr 5000 fermetrum í 8800 fermetra. Framkvæmdir við lúxus hótelið ganga vel og mun þeim ljúka á næsta ári.
Gestir Silica Hótels hafa aðgang að sér lóni og hefur það fallið í góðan jarðveg. Nýlega var herbergjum fjölgað úr 15 í 35 auk þess sem eldri herbergi voru endurgerð.