Hótel Keilir hefur starfsemi í júní
Skemmst er þess að bíða að nýtt hótel hefji starfsemi sína í Reykjanesbæ en það ber nafnið Hótel Keilir og er staðsett að Hafnargötu 37. Feðgarnir Ragnar Skúlason og Þorsteinn Lár Ragnarsson eru nú í óðaönn ásamt iðnaðarmönnum við að fullklára hótelið sem hefur á 40 herbergjum að skipa.
„Lóðin sem hótelið er á hefur verið í eigu fjölskyldunnar í rúm 20 ár en það var fyrir um sex árum sem pabbi kom heim einn daginn og var staðráðinn í því að þarna myndum við byggja hótel,“ sagði Þorsteinn Lár, markaðsstjóri Hótels Keilis, í samtali við Víkurfréttir.
Gert er ráð fyrir því að hótelið verði opnað um miðjan júní en það dregur nafn sitt af fjallinu Keili og af þeim herberjum hótelsins er snúa út að Faxaflóanum er hægt að fá fallegt útsýni yfir allan flóann og svo vitaskuld Keili sjálfan.
Hótel Keilir verður þriggja stjörnu hótel með flísalögðum baðherbergjum og á hverju herbergi eru stórir gluggar og snúa þeir annað hvort út á Hafnargötuna með útsýni yfir mannlífið eða út á Faxaflóann.
VF-mynd/ [email protected]: Feðgarnir Þorsteinn og Ragnar fyrir utan Hótel Keili. Margir þekkja Ragnar betur sem Ragga rakara en hann byggði húsið fyrir hartnær 25 árum.