Hótel Keflavík styrkir verslun og þjónustu í Reykjanesbæ þriðja árið í röð
Í framhaldi af vel heppnuðu átaki síðustu tveggja ára höfum við hjá Hótel Keflavík ákveðið að styrkja verslun og þjónustu í Reykjanesbæ með að bjóða allt að 500 gistiherbergi í desember eins og í fyrra. Hugmyndin gengur út að það að þeir gestir sem koma frá öðru bæjarfélagi í verslunarferð til Reykjanesbæjar í desembermánuði geta notað greiðslukvittanir eða reikninga fyrir viðskiptum á allri þjónustu eða verslun í Reykjanesbæ sem greiðslu fyrir glæsi gistingu - sem sagt gist án aukagjalds í boði okkar. Við vonum að þessi hugmynd og framlag komi jólaverslun í bænum okkar vel og okkur öllum í gott jólaskap.
Undanfarin ár hefur átt sér stað mjög jákvæð þróun í miðbænum þar sem samstaða fyrirtækja hefur aukist, en það var einmitt grundvallarmarkmiðið með þessu framtaki. Við höfum skapað trú á okkur innan bæjarins og hefur það kristallast í stofnun samtakanna Betri bær, en markmið þeirra er að vinna að sameiginlegum hagsmunum fyrirtækjanna í bænum í samstarfi við bæjaryfirvöld, félagssamtök og alla þá sem hafa áhuga á að gera góðan bæ betri.
Ástæðan fyrir því að við höfum ráðist í þetta framtak í þriðja skipti er sú að þetta hefur skilað góðum árangri síðustu ár og að auki viljum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að stuðla að framþróun þjónustu og verslunar í bænum.
Reykjanesbær stendur framarlega á mörgum sviðum s.s. í íþróttum, tónlist, skólamálum svo eitthvað sé nefnt og höfum við alla burði til að vera til fyrirmyndar í verslun og þjónustu fyrir bæjarbúa og gesti. Aukning á verslun í Reykjanesbæ verður ekki til eingöngu með vilja neytanda. Við sem neytendur, verslunareigendur og bæjarfélag verðum að standa saman. Við eigum að auglýsa bæinn okkar á jákvæðan hátt og sú auglýsing þarf ekki alltaf að kosta mikla fjármuni. Með vilja og áræðni má ná mjög langt. Við verðum að vekja okkur sjálf til umhugsunar um hvað gott er að versla heima.
Kær kveðja,
Steinþór Jónsson, hótelstjóri á Hótel Keflavík
Til að gera enn betur í þessum málum fékk Hótel Keflavík á dögunum vilyrði frá ferðamálaráði um að fá fjármuni til þess að renna ennþá styrkari stoðum undir verslun og þjónustu á svæðinu. Það var í formi þess að ráðið var reiðubúið til að koma að auglýsingakostnaði fyrir ofangreint átak þ.e. að leggja til helming upphæðar við auglýsingarkostnað, allt að 1 milljón króna. Það þýðir að ef framtakið væri auglýst fyrir 2 milljónir væri mótframlagið 1 milljón.
Hótel Keflavík hefur ákveðið að bjóða öllum áhugasömum aðilum í verslun og þjónustu að eiga hlutdeild í verkefninu þannig að þeir sem vilja geta fengið hluta af framlaginu til hótelsins á móti eigin auglýsingakostnaði. Steinþór heldur því áfram hinu góða starfi sem hann hefur unnið að við eflingu Reykjanesbæjar undanfarin ár. Hann hefur lengi unnið ötullega að framþróun í verslun og þjónustu í bænum og var einn helsti hvatamaður umbóta í miðbænum sem nú eru að líta dagsins ljós. Til gamans má geta að fyrir stuttu kom Steinþór fram með nýstárlegar hugmyndir um byggingu verslunarmiðstöðvar í miðbæ Reykjanesbæjar og virðist hann því hvergi ætla að slá slöku við í vinnu sinni fyrir bæjarfélagið og íbúa þess.