Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Hótel Keflavík í 25 ár: Opið hús í tilefni dagsins
Þriðjudagur 17. maí 2011 kl. 11:14

Hótel Keflavík í 25 ár: Opið hús í tilefni dagsins


Í tilefni af 25 ára afmæli Hótels Keflavíkur verður opið hús í dag á hótelinu milli kl. 17-19. Hótelið fagnar afmælinu nú í maí með afsláttum og tilboðum en boðið er upp á 50 prósent afslátt af morgunverði frá kl. 05-10 og 25 prósent afslátt af hádegishlaðborði á Café Iðnó og af a la carte matseðli á kvöldin.


25 ár eru síðan fyrsta hótel bæjarins opnaði í miðbæ Keflavíkur en Hótel Keflavík var opnað 17. maí 1986. Í fyrstu voru herbergin 22 en síðar um haustið bættust 10 herbergi í viðbót. Í dag er Hótel Keflavík stærsta hótel bæjarins, fyrsta flokks hótel með 70 herbergjum en að auki er rekið gistiheimili með sex herbergjum beint á móti hótelinu. Herbergin eru öll búin þeim þægindum sem þekkjast á góðum hótelum úti í hinum stóra heimi. Hótelið er glæsilegt fjölskyldufyrirtæki, og hefur þótt kærkominn dvalarstaður fyrir þá sem vilja hvílast vel áður en haldið er af stað til annarra landa. Boðið er upp á akstur að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ráðstefnuhald og árshátíðir fyrirtækja hafa aukist jafnt og þétt enda aðstaðan öll hin besta og afþreying í miklu úrvali en áhersla hefur verið lögð á að veita góða og persónulega þjónustu í hvívetna. Þrátt fyrir mikla aukningu íslendinga á leið erlendis og aukið ráðstefnuhald er meirihluti hótelgestanna þó erlendir gestir m.a. flugáhafnir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Hótelbygging á 5 hæðum rís á þremur mánuðum

Tildrög að stofnun hótelsins var sú að eigendur Ofnasmiðju Suðurnesja þau hjónin Jón William Magnússon og Unnur Ingunn Steinþórsdóttir og sonur þeirra, Steinþór Jónsson, sáu fram á að þörf væri á hóteli í bænum og í janúar 1986 var ákeðið að hefjast handa. Þau drógu fram teikningu af hótelinu, réðu til sín verktaka og þremur mánuðum síðar var hótelið risið sem hlýtur að teljast nokkuð gott þegar um 1.250 fermetra byggingu á fimm hæðum er að ræða.


Mikil breyting á aldarfjórðungi

Það voru ekki margir sem höfðu trú á að hótel gæti borið sig í Keflavík en annað hefur vissulega komið á daginn. Hótelið hefur verið vel bókað flest árin og má með sanni segja að fá hótel hafi haft betri nýtingu þegar til lengri tíma er litið. Eigendur draga ekki dul á að frábær nýting vegna veru varnaliðsins í Keflavík hafi skipt gríðarlegu miklu máli sérstaklega fyrstu árin og hafi hjálpað þeim að byggja upp glæsilegt hótel án þess að lántökur hafi verið of miklar. Það er mat þeirra að mikil skuldsetning hótela sé ein helsta ástæða gjaldþrota og eigandaskipta í hótelgeiranum en fá hótel er enn rekin af sömu aðilum og með sömu kennitölunni eftir 25 ára starfsemi.


Mikil tengsl við flugvöllinn

Hótelið hefur frá upphafi lagt áherslu á tengsl sín við flugvöllinn en auk áhafna frá varnarsvæðinu eru áhafnaskipti flugfélaga um allan heim stór þáttur í rekstri hótelsins. Þau viðskipti hafa ekki öll komið af sjálfu sér en Hótel Keflavík, með Steinþór Jónsson hótelstjóra í farabroddi, var brautryðjandi í bættri samkeppni í flugmálum Íslendinga er flugfélagið Canada 3000 hóf reglulegt áætlunarflug frá landinu árið 1995 fyrst erlendra flugfélaga fyrir þeirra tilstilli. Canada 3000 var með 16 lendingar á viku hér á landi á leið sinni frá Vancouver í Kanada til Evrópu og gistu allar áhafnir félagins á Hótel Keflavík og settu mark sitt á bæjarfélagið um árabil enda skipti fjöldi þeirra oft tugum á hverjum degi þegar mest var.


Margir frægir gestir

Á síðustu 25 árum hafa fjölmargir frægir gestir gist á hótelinu og má þar m.a. annara nefna Beyoncé Knowles og Jay-Z söngvarann Meat Love, Iron Maiden, hljómsveitina Hemann Hermits og fleiri en frægt er þegar leikarinn John Travolta fékk ekki inni á hótelinu þar sem hótelið var fullbókað. Þá leigðu fulltrúar Hvíta húsins einu sinni heila hæð til að vera viðbúnir ef Al Gore varaforseti Bandaríkjanna þyrfti að hafa viðdvöl á leið sinni til Evrópu. Undirbúningur fólst m.a. í því að beintengja símalínu til Hvíta húsins ef á þyrfti að halda. Þá dvaldi Igor Ivanoff þáverandi varnamálaráðherra Rússland á hótelinu fyrir fáeinum árum og má því með sanni segja að hótelstjórinn sé í góðu sambandi við stórveldin beggja vegna Atlantshafsins.


Ókeypis gisting fyrir jólin

Þá hafa jóladagar hótelsins síðustu fimm ár vakið mikla athygli en í desember hvert ár hefur Hótel Keflavík boðið endurgjaldslausa gistingu á hótelinu gegn því að fólk framvísi kvittunum fyrir kaupum á vörum eða þjónustu í bænum sem svarar til verðmæti gistingarinnar. Ekki er vitað til þess að nokkuð hótel í heiminum hafi farið þessa leið til að styðja við verslun í bæjarfélagi sínu. Hefur hótelið tekið frá 20 herbergi í þessu skyni á hverri nóttu í desember fram til jóla og hefur eftirspurn öll árin verið meiri en framboðið. Þessi uppákoma hefur bæði vakið athygli á Reykjanesbæ sem verslunarstaðar og á hótelinu sem góðum kosti á Reykjanesi.