Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Hótel Keflavík eignast allan Vatnsnesveg 12-14
Vatnsnesvegur 12-14 í Keflavík.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 20. desember 2019 kl. 09:52

Hótel Keflavík eignast allan Vatnsnesveg 12-14

- kaupir húseign Verslunarmannafélags Suðurnesja

Hótel Keflavík hefur keypt húsnæði sem áður var eign Verslunarmannafélags Suðurnesja. Þar með hefur hótelið eignast síðasta hlutann af Vatnsnesvegi 12-14. Undanfarin misseri hafa staðið yfir miklar endurbætur á Hótel Keflavík. M.a. er verið að endurnýja móttöku hótelsins. Skrifstofur sem þar eru í dag munu flytja í rými verslunarmannafélagsins.

„Við erun að endurnýja móttökuna í sama anda og Diamond Suites. Sú eining hefur verið mikilvægur partur af velgengni fyrirtækisins. Að auki batnar aðgengi fyrir KEF restaurant mikið og nýjir möguleikar skapast með nýjum rýmum, lúxus bar, fundarsölum og spennandi nýjungum sem munu vera kynntir samhliða þeim breytingum sem nú standa yfir. Ég held að sumt muni koma á verulega á óvart,“ segir Steinþór Jónsson hótelstjóri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Steinþór segir að uppbygging síðustu ára hafi tekið mið af þessum möguleika sem nú er orðinn að veruleika.

„Uppbygging hótelsins hefur verið löng og við erum stolt af hverju skrefi sem tekið hefur verið í 34 ára sögu fyrirtækisins en kapp er best með forsjá. Með þessari eign opnast m.a. stórir möguleikar til að fjölga herbergjum en í dag er það skýr stefna stjórnar félagsins að Diamond Suites, Hótel Keflavík og KEF restaurant skapi sér frekar sérstöðu með áherslu á gæði og einstaka upplifun áður en frekari tækifæri til stækkunar verða skoðuð nánar en þau eru nú vissulega til staðar. Fjöldi herbergja á svæðinu er að aukast langt umfram væntingar um fjölda ferðamanna og þetta er okkar svar við þeirri stöðu. Við tengjumst ekki neinni hótelkeðju og viljum vera áfram einkarekið gæða fjölskylduhótel þar sem gestir njóta aðstöðunnar en koma ekki bara til að gista. Á þessu tvennu er stór munur,“ segir Steinþór.

Steinþór segist þakklátur VR fyrir þetta tækifæri að fá að kaupa eignina. VR mun opna skrifstofu í Krossmóa í Reykjanesbæ en þar eru fyrir mörg stéttarfélög í bænum. „Einnig þakklæti til starfsmanna Verslunarmannafélags Suðurnesja fyrir frábæra sambúð í allan þennan tíma og það hallar ekki á neinn þó ég nefni Guðbrand Einarsson sérstaklega í því sambandi“.



Steinþór Jónsson frá Hótel Keflavík og Stefán Sveinbjörnsson frá VR handsala kaupsamninginn.