Hollustustaður með veglegan matseðil
Karma Keflavík, sem er hollustumatsölustaður þar sem boðið er uppá holla skyndibita og næringarlega rétt samasettar máltíðir í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar, opnaði í Grófinni 8 í Keflavík á föstudaginn. Það eru þær Sóley Birgisdóttir, lýðheilsufræðingur og Hildur Kristjánsdóttir sem standa að matsölustaðnum.
„Nafnið á staðnum, Karma, kom eiginlega útaf þýðingu orðsins. Karma þýðir í raun afleiðing á gjörðum fólks, en það sem við látum ofan í okkur verður einhver afleiðing því við erum það sem við borðum,“ sagði Sóley.
„Við notum aðeins gæða hráefni. Ekkert ger, sykur eða hvítt hveiti er notað og þess í stað erum við með mikið af lífrænu hráefni, þó ekki allt þar sem það fæst ekki allt lífrænt í dag.“ Á staðnum má finna setninguna hollt fæði eykur lífsins gæði á nokkrum stöðum en það er slagorð staðarins.
Matseðillinn á Karma Keflavík er frekar veglegur. Kjúklingavefja, lasagna, graskerssúpa og Karmabollur en allt eru þetta hollir réttir og næringarlega rétt samsettir. Karmakakan hefur fengið svakalega dóma en hún er með kiwi, jarðaberjum og rjóma, ekkert ólík eplaköku.
„Okkur langar líka til að innleiða smá kaffihúsastemningu og þá vera með kaffi og kökur á boðstólnum. Fólk getur komið og skoðað listasýningu sem er í salnum hjá okkur en það verða alltaf einhverjar sýningar í salnum, nýr listamaður á sirka 6 vikna fresti,“ sagði Sóley. Karma Keflavík er opið mánudaga til föstudaga frá kl. 11:00 til 19:30.
VF-Myndir: Siggi Jóns
Karmakakan er hollustukaka en hægt er að fá rjóma með henni, þeyttan og sýrðan.