Hlutur Voga í Hitaveitu Suðurnesja til sölu?
Á fundi hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps í gær var samþykkt tillaga um að heimila sveitarstjóra að kanna verðmæti eignarhluta hreppsins í Hitaveitu Suðurnesja. Vatnsleysustrandarhreppur á 203 milljónir króna að nafnvirði í Hitaveitu Suðurnesja eða sem svarar rúmum 2,7% af heildarhlutafé hitaveitunnar. Jón Gunnarsson oddviti Vatnsleysustrandarhrepps sagði í samtali við Víkurfréttir að hreppsnefnd hefði hug að því að komast að því hvert verðmæti bréfa hreppsins er í fyrirtækinu. „Þetta er stór peningaleg eign sem við eigum í Hitaveitunni en lítill hlutur af heildarhlutafé fyrirtækisins. Þegar Hitaveita Suðurnesja er orðið að hlutafélagi er spurning hvort það borgi sig fyrir sveitarfélagið að eiga svona lítinn hlut í fyrirtækinu og við viljum skoða þessa hluti á sama tíma og við erum að fara í gegnum skoðun á öllum rekstri sveitarfélagsins og endurskipulagningu á lánum.“ Jón segir að það sé síðan sjálfstæð ákvörðun hreppsnefndar að ákveða hvort selja skuli bréfin eftir að verðmæti þeirra hefur verið athugað. „Það þarf ekki að hanga saman að komast að því hvert verðmæti bréfanna er og selja þau. En ef að gott tilboð kemur í bréfin reikna ég frekar með því að hreppsnefnd myndi skoða það að selja bréfin.“
Aðspurður um það hvort könnun á verðmæti eignarhluta hreppsins í Hitaveitu Suðurnesja tengdist stöðunni vegna Varnarliðsins þar sem Varnarliðið er einn stærsti viðskiptavinur hitaveitunnar sagði Jón svo ekki vera. „Þetta er ekki tengt því. Við vitum jafn mikið og hugsanlegir kaupendur um þá stöðu sem þar er uppi. Það er ekki verið að ákveða að kanna verðmæti bréfanna með það í huga að þau gætu lækkað síðar, enda er Hitaveita Suðurnesja í útrás á fleiri stöðum.“
Aðspurður um það hvort könnun á verðmæti eignarhluta hreppsins í Hitaveitu Suðurnesja tengdist stöðunni vegna Varnarliðsins þar sem Varnarliðið er einn stærsti viðskiptavinur hitaveitunnar sagði Jón svo ekki vera. „Þetta er ekki tengt því. Við vitum jafn mikið og hugsanlegir kaupendur um þá stöðu sem þar er uppi. Það er ekki verið að ákveða að kanna verðmæti bréfanna með það í huga að þau gætu lækkað síðar, enda er Hitaveita Suðurnesja í útrás á fleiri stöðum.“