Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Hlutfall og mikilvægi skiptifarþega eykst
Þriðjudagur 12. júní 2018 kl. 06:11

Hlutfall og mikilvægi skiptifarþega eykst

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Isavia á Keflavíkurflugvelli, fjallaði um farþegaþróun á Keflavíkurflugvelli síðastliðin ár og spá Isavia fyrir árið 2018 á opnum fundi sem Isavia stóð fyrir á dögunum. Kom þar meðal annars fram að 28 flugfélög munu fljúga til landsins í sumar og verða áfangastaðirnir um 100. 
 
Einnig fór Hlynur yfir fjölda skiptifarþega og hlutfall af heildarfarþegum sem er 41% samkvæmt spá fyrir 2018 og er meiri en spáð hafði verið fyrir. Benti hann á að þetta stafi af breytingum hjá bæði Icelandair og Wow Air þar sem fleiri sæti fari nú undir skiptifarþega en farþega sem heimsækja landið. Til að mynda hafi bæði flugfélögin aukið við framboð sitt til borga í Norður-Ameríku sem eigi sinn þátt í þessari aukningu. 
 
Samkvæmt uppfærðri farþegaspá fyrir 2018 mun farþegum fjölga í heild um 15%. Mest verður aukningin á skiptifarþegum en þeim fjölgar um 37% í ár. 
 
Uppfærð spá er varðar Íslendinga sem fara um flugvöllinn sýnir að meðalaukning verði 8,3% á árinu en aftur á móti verði meðalaukning erlendra farþega 2,6% á sama tíma. Það er minni aukning en kom fram í farþegaspá Isavia sem birt var í lok nóvember í fyrra. Í uppfærðri farþegaspá er gert ráð fyrir að erlendum komufarþegum fækki í sumar en aukning verði nokkuð meiri á vetrarmánuðum.
 
Hlynur fór einnig yfir ánægjukönnun farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll. Þar kom fram marktækur munur á því hversu mjög ánægðir þeir væru með aðstöðu og þjónustu í flugstöðinni frá því sem var í fyrra.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024