Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Miðvikudagur 26. janúar 2000 kl. 13:56

Hlöllabátar opna í Keflavík

-Ódýr matur fyrir svanga Jakob Hermannsson og faðir hans, Hermann Guðjónsson, opnuðu skyndibitastaðinn Hlöllabáta við Vatnsnestorg í Keflavík 14. janúar s.l. Feðgarnir eru ekki óvanir veitingarekstri því þeir reka einnig veitingastaðinn Mamma Mía sem er í sama húsnæði og Hlöllabátar. Þeir segja að viðtökurnar hafi verið mjög góðar en þeir eru einnig með ýmsar spennandi nýjungar á prjónunum. Áhersla á girnilegar langlokur Vörumerkið Hlöllabátar hefur þegar skapað sér nafn á skyndibitamarkaðinum fyrir góðan og vel útilátinn mat á góðu verði en undanfarin ár hefur staðurinn, Hlöllabátar, verið rekinn við góðan orðstýr á Ingólfstorgi og á Fosshöfða í Reykjavík. „Við erum með sama matseðil og staðirnir í Reykjavík og erum skuldbundnir til að fara eftir ákveðnum stöðlum sem þeir eru með þar. Þetta er aðallega langlokustaður en við erum með yfir tuttugu tegundir af langlokum á boðstólnum. Á næstunni munum við einnig bjóða uppá steikur, steiktan fisk, hamborgara, kjúklinga og fleira“, sagði Jakob og Hermann bætti við að þeir stefndu á að afgreiða pizzur hjá Hlöllabátum þar sem þeir eru með sama eldhús og Mamma Mía. „Þannig náum við meiri hagkvæmni í rekstri og nýtum húsnæðið mun betur en nú er“, sagði Hermann. Ný og notaleg koníaksstofa Matsalurinn á Hlöllabátum rúmar um tuttugu matargesti en þeir segja að hingað til hafi flestir kosið að taka matinn með sér heim. Feðgarnir sögðust reyndar eiga eftir að breyta salnum og gera hann hlýlegri en nú er því þeir hefðu verið í tímaþröng fyrir opnunina. „Við erum jafnvel að hugsa um að setja upp sjónvarp hér í matsalnum svo fólk geti komið og fylgst með íþróttunum á meðan það borðar en við erum með opið hér frá kl. 11:30-22 á virkum dögum og frá 11:30-23:30 um helgar. Einnig stendur til að útbúa koníaksstofu á Mamma Mía þar sem fólk getur slappað af og haft það notalegt fyrir og eftir máltíð“, sagði Jakob. Fyrirhuguð nætursala Jakob sagði að því væri ekki að neita að viðtökurnar við Hlöllabátum hefðu verið mjög góðar. „Við ætlum að leggja áherslu á fljóta afgreiðslu og gott verð. Langlokurnar hjá okkur kosta allar um fimm hundruð krónur sem er ekki mikið fyrir góða máltíð. Við ætlum að sjá hver eftirspurnin verður og ef vel gengur þá erum við að hugsa um að vera með nætursölu um helgar, bæði á pizzum og á langlokum.“ Ef af þessum áætlunum veitingafeðganna verður er víst að margur næturhrafninn mun gleðjast.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024