HJÓLASTÓLAFARÞEGAR Í HVALASKOÐUN
Sjávarlífsskoðunarfyrirtækið Hvalstöðin Keflavík undir stjórn Guðmundar Gestssonar bætti heldur betur á sig blómum fyrir yfirstandandi ferðamannatímabil og geta þeir sem bundnir eru hjólastólum nú hreinlega ekið sjálfum sér um borð. Við þurftum í fyrra að bera hjólastólafarþegana yfir lunninguna og ákváðum að reyna að bæta aðgengið. Nú er hægt að aka alla leið um borð. Þá höfum við sett upp neðansjávarmyndavél með ljósnæminu 0,003 LUX sem er afar gott og dugir niður á allt að 80 metra. Við höfum nú aðeins látið reyna á 30 metrana og er útsýnið nánast eins og á sjónvarpsskjá. Þar að auki höfum við meðferðis hljóðnema sem nemur höfrungasönginn, þ.e.a.s nemur tíðni höfrunga og getum við oftast hlustað á hljóðin í þeim þegar við slökkvum á öllum vélum um borð. Það skemmtilega við ferðirnar þetta sumarið er þó að æ fleiri Íslendingar koma með. Við höfum veitt því eftirtekt að oft hringja Íslendingar og skrá sig á ferðir með erlendum vinum og kunningjum sem eru í heimsókn. Þessir sömu aðilar koma síðan aftur og nú með eigin fjölskyldur. Staðreyndin er nú sú að margir bornir og barnfæddir Keflvíkingar hafa aldrei séð nánasta nágrenni bæjarins frá sjó“ sagði Guðmundur Gestsson.