Hjá Höllu opnar á Keflavíkurflugvelli
Veitingastaðurinn Hjá Höllu hefur opnað formlega í suðurbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli þar sem gengið er út í hlið C á flugvellinum. Hjá Höllu var með hagstæðasta tilboðið í samkeppni um útleigu á aðstöðu undir veitingaþjónustu sem fram fór síðastliðið vor. Veitingastaðurinn er rekinn af Höllu Maríu Svansdóttur sem hefur rekið veitingastað undir sama merki í Grindavík við góðan orðstír. Gerður var 4 ára samningur um reksturinn.
Hjá Höllu býður uppá eldbakaðar súrdeigspítsur, ferskan fisk frá Grindavík, fersk salöt sem og úrval rétta til að taka með sér í flug. Búið er að koma fyrir stórum gaseldofni þar sem pítsurnar eru bakaðar við háan hita á aðeins 90 sekúndum. Þeir farþegar sem eru hvað mest að flýta sér geta gripið með sér tilbúnar pítsusneiðar.
„Við erum mjög spennt að hefja nú rekstur á staðnum en opnunin er búin að vera í undirbúningi í sumar, allt frá því að samkeppninni lauk. Það er búið að vera mikil áskorun að setja upp stað sem þennan í flugstöðinni enda fjölmörg atriði sem þarf að hafa í huga í slíku verkefni með allan þann fjölda farþega sem fer hér um á hverjum degi. Viðtökurnar hafa verið afar góðar hingað til en staðurinn var opnaður til prufu fyrir nokkru síðan. Við bjóðum alla þá sem huga á ferðalög úr landi velkoma til okkar og prófa það sem við höfum uppá að bjóða, “ segir Halla María Svansdóttir.
Fjölmenni var við opnun staðarins fimmtudaginn 18. október og er staðurinn spennandi viðbót við þann fjölda veitingastaða sem fyrir eru í flugstöðinni.