Hitaveita Suðurnesja hagnast um 2,3 milljarða
Hitaveita Suðurnesja hagnaðist um rúma 2,3 milljarða króna á síðasta ári samkvæmt uppgjör sem birt er á vef Kauphallar Íslands. Hagnaður félagsins var tæpir 1,6 milljarðar í fyrra og því eykst hann um 700 milljónir milli ára.
Tekjur félagsins jukust um nærri þriðjung í fyrra og má rekja það að mestu til aukningar í raforkusölu upp á 1,3 milljarða en félagið tók Reykjanesvirkjun í notkun í maí í fyrra. Eignir félagsins nema nú samkvæmt efnahagsreikningi nærri 31 milljarði króna og jukustu um sex milljarða milli ára. Skuldir félagsins eru hins vegar 15 milljarðar, þar af stærstur hlutinn langtímaskuldir.
Fram kemur í tilkynningunni að Bandaríkjastjórn hafi verið stærsti einstaki kaupandi heits vatns og raforku hingað til en í fyrra var þeim samningi sagt upp um leið og varnarliðið hvarf af landi brott. Voru tekjur Hitaveitunnar vegna þessara viðskipta nærri milljarður á árinu 2005. Eins og greint var frá í fréttum var samið um tíu milljóna dollara eingreiðslu, jafnvirði um 600 milljóna króna, vegna uppsagnar samningsins en ekki hefur verið gengið frá endanlegum samningi þar um.
Frétt af www.visir.is
VF-mynd: elg