„Hérna eru aðstæður til áframeldis hagstæðar“
Samherji fiskeldi hefur starfrækt áframeldisstöð fyrir bleikju á Vatnsleysuströnd í sautján ár. Miklar endurbætur á síðustu árum.
Samherji fiskeldi hefur starfrækt áframeldisstöð fyrir bleikju á Vatnsleysuströnd á Reykjanesi í sautján ár. Stöðin tekur við seiðum, sem eru alin upp í sláturstærð. Vignir Stefánsson, stöðvarstjóri, segir í frétt frá Samherja að aðstæður á staðnum ákjósanlegar fyrir slíka starfsemi. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á stöðinni á undanförnum árum og segir Vignir að stöðin sé vel búin.
Fiskurinn fluttur lifandi í sérútbúnum bílum
„Við erum með leyfi til að framleiða 1.600 tonn á ári og höfum verið nálægt því magni á undanförnum árum. Seiðin koma til okkar frá Núpum í Ölfusi, einnig frá Stað í Grindavík og eru um 120 grömm að þyngd. Hérna eru þau svo alin upp í sláturstærð, þyngdin að meðaltali 1,5 kíló. Þegar fiskurinn nær sláturstærð er hann fluttur lifandi í sérútbúnum tankbílum til vinnslu í Sandgerði,“ segir Vignir Stefánsson.
Nálægðin við Keflavíkurflugvöll
Allt eldið fer fram utandyra í steyptum kerjum. Vignir, sem er menntaður fiskeldisfræðingur frá Háskólanum á Hólum í Hjaltadal, segir að fjórtán til fimmtán mánuði taki að ala seiðin.
„Hérna eru aðstæður til bleikjueldis hagstæðar, vatnsgæði eru góð, bæði hvað varðar seltu og hita en allt vatn kemur frá okkar eigin borholum. Allir innviðir til fiskeldis á svæðinu eru góðir, bæði hvað varðar mannauð, þjónustu og svo er nálægðin við Keflavíkurflugvöll ákjósanleg.“
Landeldi er vandasamt
Starfsmenn stöðvarinnar eru sjö talsins og sinna verkefnum á Stað. Vignir segir að stöðin hafi verið endurnýjuð verulega á síðustu árum.
„Allar þessar breytingar gera reksturinn, sem er að stórum hluta tölvustýrður, traustari. Á síðasta ári var nýtt fóðurkerfi tekið í notkun en hérna hafa verið gerðar margháttaðar endurbætur svo að segja á hverju ári. Ég segi hiklaust að stöðin sé nokkuð vel útbúin á allan hátt, sem er nauðsynlegt til að standast þær kröfur sem gerðar eru til hágæða framleiðslu. Landeldi er á margan hátt vandasamt og þá er mikilvægt að allur tækjabúnaður og aðbúnaður sé sem bestur og öruggastur. Á öllum okkarv starfsstöðvum starfar fólk sem er með mikla þekkingu á öllum þáttum fiskeldis. Samherji fiskeldi hefur lagt mikla fjármuni í endurbætur, enda má segja að tækniframfarir séu nokkuð örar þótt grunnurinn sé auðvitað alltaf sá sami.“
Bleikjan er herramannsmatur
„Já, ég borða reglulega bleikju og finnst hún betri en laxinn, sem er reyndar líka afskaplega góður. Ég steiki bleikjuna, grilla og baka í ofni en sýð svo að segja aldrei. Maður fær einfaldlega aldrei leið á bleikjunni, þetta er sannkallaður herramannsmatur,“ segir Vignir Stefánsson stöðvarstjóri áframeldisstöðvar Samherja fiskeldis á Vatnsleysuströnd.