Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

  • Hekla blæs til sóknar á Suðurnesjum
    Sigurður P. Sigmundsson, nýr rekstrarstjóri Heklu í Reykjanesbæ í sýningarsal Heklu við Njarðarbraut. VF-myndir: Hilmar Bragi
  • Hekla blæs til sóknar á Suðurnesjum
    Bílasala og þjónustuverkstæði Heklu í Reykjanesbæ.
Föstudagur 3. júní 2016 kl. 11:09

Hekla blæs til sóknar á Suðurnesjum

16% bílaflota Suðurnesjamanna frá Heklu

Hekla hefur ákveðið að blása til sóknar á Suðurnesjum með því að efla og styrkja enn frekar starfsemi fyrirtækisins í Reykjanesbæ. Á Suðurnesjum eru hátt í 10 prósent einkabílamarkaðarins á landinu og segja forsvarsmenn Heklu því til mikils að vinna að reka öfluga starfsstöð í Reykjanesbæ, bæði hvað varðar sölu bíla og ekki síður í þjónustu við bíla Heklu.

Sigurður P. Sigmundsson hefur tekið við stöðu rekstrarstjóra Heklu í Reykjanesbæ. Hann verður ábyrgur fyrir daglegum rekstri starfseminnar í Reykjanesbæ og mun leiða sókn Heklu á ný mið og afla frekari viðskipta bæði í sölu nýrra bíla og þjónustu.

Rekstur Heklu í Reykjanesbæ hefur verið á höndum einkaaðila í mörg ár en um áramótin 2014-15 tók Hekla alfarið við rekstrinum. Um síðustu áramót var svo tekin ákvörðun um að efla reksturinn í Reykjanesbæ enn frekar. Unnið hefur verið að því síðustu mánuði að styrkja verkstæðið svo það geti boðið betri þjónustu. Allur búnaður verkstæðisins hefur verið endurnýjaður eða yfirfarinn og verkfærakosturinn efldur. Sigurður P. segir að eigendur bíla frá Heklu séu farnir að sækja meira í þjónustu hjá verkstæðinu en áður. Á verkstæðinu verða starfandi fimm bifvélavirkjar en voru lengi vel þrír. Þá er þjónusturáðgjafi sem einnig selur varahluti en aukin tækifæri eru í sölu varahluta.

Sigurður P. segir að nú sé unnið að sóknaráætlun hjá Heklu fyrir Suðurnes og að stefnt sé á að bjóða hér góða þjónustu. Undanfarna mánuði hefur náðst góður árangur í viðsnúningi á rekstri Heklu í Reykjanesbæ og áfram verður byggt undir það. Þá segir Sigurður P. að enn séu ónýtt sóknarfæri í sölumálum og þá sé stefnan að vera sýnilegri á svæðinu.

Bílaeign Suðurnesjamanna er mikil. Á Suðurnesjum í heild eru um 15.000 bílar. Af þeim eru 11.500 árgerð 2000 og yngri. Af bílaflota Suðurnesjamanna eru um 2300 bílar frá Heklu og þar af 1800 yngri en árgerð 2000. Hekla er því með um 16 prósent af bílaflotanum á Suðurnesjum.

„Það er því til mikils að vinna að fá þessa eigendur með bílana sína í þjónustu til okkar hér í Reykjanesbæ,“ segir Sigurður P.

Hekla í Reykjanesbæ býður til stórsýningar á nýjum bílum á laugardaginn þar sem sýnt verður allt það nýjasta í bílum frá Heklu. Mikil aukning hefur verið í sölu nýrra bíla bæði á þessu ári og einnig í fyrra og allar spár gera ráð fyrir aukningu í sölu nýrra bíla næstu tvö til þrjú árin. Auk sýningar á bílum verður Heklubílaeigendum boðið upp á létt þrif á bílum sínum.

Mikil umsvif eru hjá Heklu í sölu bíla til bílaleigufyrirtækja og hjá Heklu í Reykjnesbæ hefur verið sett upp 360 fermetra tjald á lóð fyrirtækisins þar sem í sumar verða standsettir um 700 bílaleigubílar fyrir bílaleigur á Keflavíkurflugvelli. Hekla afgreiðir í ár um 1400 bíla til bílaleiga og helmingur þeirra er afgreiddur í gegnum Heklu í Reykjanesbæ. Gert er ráð fyrir að standsetning bílanna muni standa yfir fram í júlí. Hingað eru bílarnir fluttir á bílaflutningabílum og fara svo í gegnum standsetningarferlið í starfsstöðinni í Reykjanesbæ og eru að lokum þrifnir áður en þeir eru afhentir bílaleigunum. Þessi vinna útheimtir sex til sjö störf þannig að hjá Heklu í Reykjanesbæ eru í dag 14 til 15 starfsmenn að staðaldri.

Sigurð P. kannast margir við úr afreksíþróttum. Hann er þekktur hlaupari, afreksíþróttamaður og reyndur þjálfari afrekshlaupara. Hann er með meistarapróf í stjórnun og stefnumótun og er búsettur í Hafnarfirði. Hann segir lítið mál að keyra til Reykjanesbæjar, enda styttra hingað í tíma en að fara inn í höfðuborgina á álagstímum á morgnana.




 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024