Viðskipti

Heimsókn tveggja ráðherra í gagnaver á Suðurnesjum
Á myndinni eru talið frá vinstri: Björn Brynjúlfsson framkvæmdastjóri Borealis Data Center, Jóhann Þór Jónsson, forstöðumaður rekstrarsviðs Advania og formaður DCI, Isaac Kato fjármálastjóri Verne Global, Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðher
Föstudagur 28. apríl 2017 kl. 07:00

Heimsókn tveggja ráðherra í gagnaver á Suðurnesjum

Samtök gagnavera, DCI, buðu Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Jóni Gunnarssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í heimsókn í gær í Mjölni, gagnaver Advania og gagnaver Verne Global sem bæði eru staðsett á Suðurnesjum. DCI er starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins sem vinnur að því að bæta starfsskilyrði gagnavera á Íslandi. Innan samtakanna eru átta aðilar en unnið er að uppbyggingu fleiri gagnavera hér á landi. 

Jóhann Þór Jónsson, formaður DCI, segir tilgang heimsóknarinnar hafa verið að kynna fyrir ráðherrunum starfsemi gagnavera á Íslandi og helstu áskoranir í frekari vexti þeirra. „Það hefur ítrekað verið fjallað um möguleika á nýjum grænum iðnaði á Íslandi og mikilvægt að horft verði til gagnavera þegar kemur að því að forgangsraða þeirri orku sem virkjuð verður á Íslandi til framtíðar. Rekstur gagnavera er grænn iðnaður og honum fylgja störf fyrir vel menntað fólk. Það hefur sýnt sig erlendis að á þeim svæðum þar sem mikið er af gagnaverum þá safnast saman fjöldi tækni- og rannsóknarfyrirtækja. Þannig hafa nágrannar okkar á Norðurlöndum, sér í lagi í Svíþjóð, séð mikil tækifæri í uppbyggingu gagnavera og hlúð markvisst að þeim í gegnum skattkerfisbreytingar og öflugt stuðningsnet. Á Íslandi eru kjöraðstæður fyrir rekstur gagnavera og við höfum því alla burði til að verða á meðal leiðandi þjóða á þessu sviði en til þess þarf aðstoð og áhuga stjórnvalda.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir heimsóknina hafa verið fróðlega. „Þessi gagnaver hafa náð ágætum vexti þrátt fyrir harða alþjóðlega samkeppni, þau nota orðið töluverða orku og eru því kærkomin viðbót sem eykur fjölbreytnina í hópi helstu orkukaupenda landsins.“

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir fyrirsjáanlegan vöxt í þessari atvinnugrein afar áhugaverðan.  „Það er verkefni okkar stjórnmálamanna að skapa greininni sem best starfsskilyrði hér á landi til að styrkja samkeppnisstöðu þeirra á alþjóðamarkaði. Þannig þurfi bæði að líta til aukinnar raforkuframleiðslu hér á landi sem og bættra tenginga til gagnaflutninga til annarra landa.“