Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Heilsumiðstöð í Keflavík
Fimmtudagur 24. október 2002 kl. 17:01

Heilsumiðstöð í Keflavík

Osteópatía er líkamsmeðhöndlunarkerfi upprunnið frá Bandaríkjunum í kringum 1874 og eru fræðin kennd fjórum árum í B.sc. námi á háskólastigi. Haraldur Magnússon er einn af þremur einstaklingum sem hafa numið fræðin, en einungis tveir stunda Osteópatíu lækningar hér á landi. Haraldur segir að Osteópatía teljist hvorki til óhefðbundinna né hefðbundinna lækninga: „Þessi lækningaaðferð er skilgreind sem samlækningar þar sem notast er við það besta úr báðum greinum. Osteópatar greina og meðhöndla tilfallandi vandamál í gegnum vöðva og liðkerfi líkamans með því að vega og meta hreyfanleika og virkni liðamóta og mjúkvefja. Osteópati er í senn hnykkjari og sjúkranuddari.“
Haraldur segir að 1/3 af hans námi hafi verið á sviði læknisfræði. Haraldur segir að í fyrsta tíma fari fram greining á viðkomandi: „Í fyrsta tíma sem er um 60-80 mínútur að lengd er farið ítarlega í sögu og þróun á vandamáli viðkomandi. Því næst er farið yfir sjúkrasögu, veikindi og meiðsl til athugunar hvort tengsl séu þar á milli eða hvort tilvísun á lækni sé ráðlögð. Í framhaldi af þessu eru framkvæmd bæklunar- og hreyfifræðileg próf og meðferðin loks sniðin að þörfum viðkomandi einstaklings. Framhaldstímar eru 30 - 40 mínútur þar sem meðhöndlun á sér stað, en einnig er framvinda metin,“ segir Haraldur.
Osteópatía getur hjálpað flestum með eftirtalin vandamál: Bakverki, hálsverki, stífleika í öxlum, suma höfuðverki, leiðandi verki út í hendur og fætur svo eitthvað sé nefnt. Haraldur segist vona að Heilsumiðstöðin á Hafnargötu 35 þar sem hann er til húsa verði í framtíðinni aðstaða fyrir nuddara, nálastunguaðila og hómeopata: „Ég vonast til að þetta verði heilsumiðstöð þar sem blandað verður saman óhefðbundnum og hefðbundnum lækningum, auk samlækninga,“ segir Haraldur. Þeir sem vilja fá frekari upplýsingar um meðferð eða námið geta hringt í síma: 846-3380.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024