Hefur komið að uppbyggingu helstu mannvirkja á Suðurnesjum
„Fá landsvæði á Íslandi eiga jafn góða möguleika til að vaxa og dafna og Suðurnesin,“ segir Brynjólfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri.
Verkfræðistofa Suðurnesja ehf. fagnar nú um þessar mundir 40 ára afmæli sínu. Stofan var stofnuð þann 2. febrúar 1980, starfsmenn voru þá aðeins tveir talsins. Í dag er Verkfræðistofa Suðurnesja níunda stærsta verkfræðistofa landsins. Brynjólfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri, segir verkefnin sem Verkfræðistofa Suðurnesja taki að sér séu mjög fjölbreytt og hafi ávallt verið í gegnum tíðina. Stofan þjónustar jafnt sveitarfélögin á svæðinu, fyrirtæki og einstaklinga og sinnir öllum sviðum framkvæmda.
Áhersla á að hafa Suðurnesjamenn í vinnu
Fyrst um sinn var stofan til húsa að Hafnargötu 32, síðan Hafnargötu 58 en flutti á Víkurbraut 13 (við Keflavíkurhöfn) fyrir átján árum. Þá var starfsemin orðin það mikil að gamla húsnæðið var orðið allt of lítið. „Í dag starfa sautján manns á Verkfræðistofunni með fjölbreytta menntun; verkfræðingar, tæknifræðingar með ýmiskonar sérhæfingu, byggingafræðingar, tækniteiknarar og iðnmeistarar. Jafnan hefur verið lögð áhersla á að ráða starfsfólk af Suðurnesjum og því hafa margir af þessu svæði, með menntun á sviði verk- og tæknifræði, slitið barnsskónum hjá Verkfræðistofunni. Starfsmenn hafa komið frá öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Eigendur eru nú átta starfandi hluthafar,“ segir Brynjólfur.
Frá því að Creditinfo fór að útnefna framúrskarandi fyrirtæki landsins hefur Verkfræðistofa Suðurnesja ávallt verið í þeim hópi, einungis um 0,2% fyrirtækja á landinu öllu hafa náð því.
Fjölbreytt verkefni
Verkefnin sem Verkfræðistofa Suðurnesja tekur að sér eru mjög fjölbreytt og hafa ávallt verið í gegnum tíðina. Stofan þjónustar jafnt sveitarfélögin á svæðinu, fyrirtæki og einstaklinga og sinnir öllum sviðum framkvæmda.
„Starfsmenn Verkfræðistofunnar hafa komið að uppbyggingu helstu mannvirkja á Suðurnesjum á þessum 40 árum. Uppbygging orkuveranna í Svartsengi og Reykjanesi, Bláa lónsins og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eru á meðal þeirra stærstu. Einnig uppbyggingu leikskóla, grunnskóla, hafnar-, gatna- og umferðamannvirkja sveitarfélaganna á svæðinu. Þá má nefna dreifikerfi hitaveitu, vatnsveitu og frárennslis. Gönguleiðin sem liggur meðfram strandlengju Reykjanesbæjar ásamt aðliggjandi sjóvarnargörðum eru einnig gott dæmi um verk sem heppnaðist vel og Verkfræðistofan hannaði og stjórnaði,“ segir Brynjólfur.
Mikil þróun í tækni og tækjum
Þeir sem lengst hafa starfað á Verkfræðistofunni hafa upplifað gríðarlega þróun í tækni- og tækjabúnaði sem skipt hefur sköpum fyrir starfsemina. Í upphafi voru allar teikningar til dæmis gerðar í höndunum en ekki tölvum eins og í dag að sögn Brynjólfs. „Landmælingar voru að minnsta kosti tveggja manna verk og tóku langan tíma en í dag eru mælitækin orðin þannig að einungis einn maður getur annast þær. Flygildi sér um hluta mælinga og stór hluti vinnunnar fer í raun fram innandyra. Í gegnum árin hefur ávallt verið lögð mikil áhersla á það innan stofunnar að fylgja þróun tækninnar og er hún vel tækjum og forritum búin.“
Framtíðarhorfur góðar á Suðurnesjum
Brynjólfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri VSS, segir framtíðarhorfur Verfræðistofunnar góðar og að þær fari saman við þróun og uppbyggingu á þessu svæði.
„Fá landsvæði á Íslandi eiga jafn góða möguleika til að vaxa og dafna og Suðurnesin. Flugvöllurinn og ferðaþjónustan eru í mikilli uppbyggingu. Þá getur iðnaður dafnað vel á þessu svæði ásamt grænni orkuöflun og áframhaldandi uppbyggingu á innviðum svo sem gatnagerð og hafnaraðstöðu. Þessu fylgir fólksfjölgun ásamt tilheyrandi uppbyggingu á þjónustu og menntastofnunum. Öll þessi þróun skapar tækifæri til vinnu fyrir verkfræðistofur.“
Starfsmenn Verkfræðistofu Suðurnesja hafa unnið að verkefnum hjá Bláa Lóninu.