Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fimmtudagur 21. febrúar 2002 kl. 11:52

HarpaSjöfn býður Suðurnesjamönnum málningarstyrk

Fimmta árið í röð mun Harpa Sjöfn hf. úthluta málningarstyrkjum til menningar- og góðgerðarstarfsemi á Íslandi. Að þessu sinni ver Harpa Sjöfn einni milljón króna til málningarstyrkja, sem verða á bilinu 50-300 þúsund krónur hver. Á síðasta ári sameinaðist Harpa hf. málningarfyrirtækinu Sjöfn og mun sameinað fyrirtæki halda áfram að veita málningarstyrki til verðugra verkefna.Styrknum skal varið í endurbætur á mannvirkjum sem hafa menningarsögulegt gildi eða til málningarverkefna á vegum góðgerðarfélaga, íþrótta- og ungmennafélaga, menningarsamtaka eða kristilegra samfélaga sem vilja fegra umhverfi sitt. Í þau fjögur skipti sem fyrirtækið hefur úthlutað styrkjum hafa 60 aðilar fengið samtals um 10.000 lítra af málningu.

16 verðug verkefni styrkt í fyrra

Í fyrra voru styrkþegar 16 talsins, þeirra á meðal voru Stofnun Sigurðar Nordals, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Staðarkirkja í Grunnavík á Jökulfjörðum, Krabbameinsfélag Íslands, Breiðabólstaðarkirkja í Vesturhópi, Brimilsvallakirkja í Ólafsvík, Sumarbúðir KFUM í Vatnaskógi, Breiðavík við Látrabjarg og Græna húsið á Siglufirði.

Margir um hituna

Undanfarin ár hafa mun fleiri sótt um málningarstyrk en hafa fengið úthlutun. Umsóknarfrestur er til 3. apríl næstkomandi. Umsóknum ber að skila til Hörpu Sjafnar ehf., Austursíðu 2, 601 Akureyri eða Stórhöfða 44, 110 Reykjavík. Í umsókn þarf að gera grein fyrir verkefninu og gefa upp áætlað magn Hörpu Sjafnar málningar sem þarf til verksins auk þess sem ljósmynd af mannvirkinu þarf að fylgja með.

Í maí verður tilkynnt hverjir hljóta málningarstyrk frá Hörpu Sjöfn árið 2002. Dómnefnd velur úr umsóknum. Í dómnefndinni eru Baldur Guðnason, stjórnarformaður Hörpu Sjafnar hf., Vigfús Gíslason sölustjóri, Kristinn Sigurharðsson sölustjóri og Helgi Magnússon, framkvæmdastjóri Hörpu Sjafnar. Styrkþegar sjá alfarið um kostnað við framkvæmd verkefna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024