Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Mánudagur 3. september 2001 kl. 11:01

Hagnaður Keflavíkurverktaka hf. nam 120,4 milljónum króna

Keflavíkurverktakar hf. voru reknir með 120,4 milljóna króna hagnað á fyrri hluta árs 2001. Hagnaður fyrir skatta nam um 192 milljónum króna. Veltufé frá rekstri nam 168 milljónum króna samanborið við 15 milljón króna sama tíma árið á undan.
Rekstrartekjur námu 1.024,9 milljónum króna og hækkuðu um 47,2% á miðað við sama tíma árið á undan en rekstrargjöld voru 839,1 milljónir króna sem er 16,4% hækkun á milli samanburðartímabila. Hagnaður fyrir fjármagnsliði nam 181,9 milljónum króna, eða sem svarar til 17,7% af rekstrartekjum. Sama tíma árið áður var tap af rekstrinum að fjárhæð 24,7 milljónum króna, eða 3,6% af rekstrartekjum.
Fjármunatekjur að frádregnum fjármagnsgjöldum auk reiknaðri gjaldfærslu vegna áhrifa almennra verðlagsbreytinga námu 10,2 milljónum króna samanborið við 6,1 milljónum króna sama tímabil árið á undan. Reiknaðir skattar nema 71,7 milljónum króna, samanborið við 2,7 milljónir króna tekjufærslu reiknaðra skatta sama tíma árið áður. Hagnaður félagsins á fyrri hluta árs árið 2001 nam því 120,4 milljónum króna samanborið við tap að fjárhæð 15,9 sama tímabil árið á undan
Veltufé frá rekstri á fyrri hluta árs 2001 nam 168 milljónum króna, en var 15,1 milljónir króna á fyrri hluta ársins á undan. Handbært fé frá rekstri var 221,5 milljónir króna samanborið við 53 milljónir króna sama tímabil árið á undan.

Efnahagur
Heildareignir Keflavíkurverktaka hf. í lok júní 2001 voru bókfærðar á 1.969 milljónir króna. Skuldir og skuldbindingar námu hins vegar 545,4 milljón króna og var því eigið fé félagsins í lok júní 2001 1.423,7 milljónir króna, samanborið við 1.290,5 milljónir króna í árslok 2000. Bókfært eigið fé félagsins hafði því aukist um 133,1 milljónir króna á fyrri hluta árs 2001, eða um 10,3%.
Í júnílok 2001 var eiginfjárhlutfall félagsins 72,3%, samanborið við 76,18% í lok ársins 2000. Veltufjárhlutfallið var 2,21 samanborið við 2,60 í árslok 2000 og innra virði hlutafjár var 4,52 samanborið við 4,10 í árslok 2000.

Rekstrarniðurstaðan góð
Róbert Trausti Árnason, forstjóri Keflavíkurverktaka hf., segir að afkoma félagsins sé í takt við áætlanir. „Í áætlunum okkar gerðum við ráð fyrir aukningu á verkefnastöðu utan vallar sem gekk betur eftir en búist var við. Gengisþróun hefur verið okkur hagstæð og hafa tekjur félagsins aukist af verkum innan vallar vegna þessa.. Áhrif sameiningar Keflavíkurverktaka hefur verið að skila sér og hefur tekist að lækka rekstrarkostnað með bættu skipulagi. Þetta hefur haft góð áhrif á reksturinn,“ segir hann.

Góðar horfur fyrir yfirstandandi ár
Róbert Trausti segist bjartsýnn á rekstrarhorfur fyrir yfirstandandi ár þrátt fyrir aukna samkeppni. „Í maí undirrituðu fulltrúar bandarískra og íslenskra stjórnvalda samkomulag um fyrirkomulag verktöku fyrir Varnarliðið á Íslandi. Af því leiðir að að eftir 2003 verða öll verk Varnarliðsins boðin út að undangegnu forvali og er þar með horfið frá því fyrirkomulagi að úthluta varnarliðsverkum til valinna fyrirtækja.
Í júní undirrituðu fulltrúar Varnarliðsins og Keflavíkurverktaka hf. nýjan þjónustusamning. Samningurinn er um þjónustu ýmiss konar fyrir þá varnarliðsmenn og skyldulið þeirra, sem býr í húsnæði í eigu Varnarliðsins. Félagið vinnur nú fjölmörg verk fyrir Varnarliðið og er verkstaða félagsins góð á Varnarsvæðunum út þetta ár.
Verkum félagsins utan varnarsvæðanna fjölgar jafnt og þétt og er það stefna félagsins að sækja í auknum mæli inná byggingamarkaðinn utan varnarsvæðanna. Félagið hyggur nú á húsbyggingar á Suðurnesjum og á Reykjavíkursvæðinu og hefur fengið byggingarland m.a. í Reykjanesbæ. Félagið hefur samhliða þessu auglýst eftir byggingalandi á suðvesturhorninu. Þá sækir félagið jafnt og þétt inná viðhalds og endurnýjunarmarkað fasteigna og hefur vegnað vel þar sem af er þessu ári.
Stöðugt er unnið af því að auka arðsemi félagsins með hagræðingu, aðhaldi og bættu skipulagi, jafnframt því að styrkja innviði félagsins til að mæta samkeppni á varnarsvæðunum og utan þeirra“, segir Róbert Trausti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024