Hagnaður HS Veitna 124 milljónir
Hagnaður HS Veitna nam 124 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra nam hagnaðurinn 91 milljón króna. Skýrist aukningin á hækkun tekna, hækkun á gjaldfærðri lífeyrisskuldbindingu, hækkun á niðurfærslu viðskiptakrafna og hærri verðbótum langtímalána en frá fyrra tímabili. Frá þessu er greint á mbl.is
Tekjur hækkuðu um 9,3% á milli tímabila. Samkvæmt rekstrarreikningi námu rekstrartekjur HS Veitna hf á tímabilinu janúar-júní 2011 2.266 m.kr. þar af vegna raforkudreifingar 1.191 m.kr., vegna sölu og dreifingar á heitu vatni 762 m.kr., vegna sölu og dreifingar á fersku vatni 223 m.kr. og vegna annarrar starfsemi 90 m.kr.
Veltufjárhlutfall var 2,28 þann 30. júní 2011 samanborið við 2,53 í árslok 2010. Annar rekstrarkostnaður hækkar verulega á milli tímabila eða um 60 m.kr. (256 m.kr. fyrir tímabilið janúar-júní árið 2011 og 196 m.kr. fyrir sama tímabil árið 2010). Þessa breytingu má að mestu skýra annars vegar með hækkun á lífeyrisskuldbindingu um 40 m.kr., en gjaldfærð lífeyrisskuldbinding fyrir tímabilið janúar-júní árið 2011 var 63 m.kr. á móti gjaldfærslu um 23 m.kr. fyrir sama tímabil í fyrra, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.
Áfram verður unnið að stækkun veitukerfa félagsins eftir því sem þörf krefur og að tryggja viðskiptavinum félagsins hámarks afhendingaröryggi, samkvæmt tilkynningu.
Eigið fé HS Veitna hf nam 8.643 m.kr. þann 30. júní 2011 (eiginfjárhlutfall 51,4%) en eigið fé í ársbyrjun var 8.769 m.kr. (eiginfjárhlutfall 53,0%). Samkvæmt efnahagsreikningi eru eignir HS Veitna hf þann 30. júní 2011 bókfærðar á 16.825 m.kr. Eignir hækkuðu um 291 m.kr. frá ársbyrjun.
Helstu eigendur HS Veitna eru: Reykjanesbær með 66,75%, Orkuveita Reykjavíkur 16,58% og Hafnarfjarðarbær með 15,42%.