Hagnaður hjá Keflavíkurverktökum
Rekstur Keflavíkurverktaka skilaði 24 millj. kr. hagnaði á síðari hluta ársins 1999 og veltan nam 828 millj.kr. Á aðalfundi Keflavíkurverktaka, sem fram fór fyrr í þessum mánuði, var samþykkt að greiða út 63 millj. kr. í arð til hluthafa.Fyrirtækið var formlega stofnað 20. október sl. með sameiningu Byggingaverktaka Keflavíkur ehf., Járn- og pípulagningaverktaka Keflavíkur ehf., Málaraverktaka Keflavíkur ehf. og Rafmagnsverktaka Keflavíkur ehf. Sameiningin miðast við 1. júlí og er reikningurinn fyrsta uppgjör sameinaðs félags. Samkvæmt þessum niðurstöðum má ætla að velta félagsins sé um 1,6 milljarður króna, en það jafngildir að Keflavíkurverktakar séu í hópi fimm stærstu verktakafyrirtækja landsins.Hlutahafar Keflavíkurverktaka eru 182 að tölu en aðeins tveir þeirra eiga stærri hlut en 5%. Jakob Árnason á 10,8% hlut og Bragi Pálsson á 8% hlut. Á aðalfundi Keflavíkurverktaka, sem fram fór fyrr í þessum mánuði, var samþykkt að greiða út arð sem samsvarar 20% af nafnvirði hlutafjár, eða um 63 milljónir króna. Engar breytingar voru gerðar á stjórn félagsins á fundinum en hana skipa Sigurður H. Guðmundsson, Einar G. Björnsson, Guðrún S. Jakobsdóttir, Jóhann R. Benediktsson og Bragi Pálsson sem er stjórnarformaður.