Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Hágæða húðvörur á erlendan markað
Þriðjudagur 7. maí 2013 kl. 09:52

Hágæða húðvörur á erlendan markað

Í gömlum skotfærageymslum varnarliðsins eru annars vegar listdansskóli og hins vegar má þar finna tilraunastofu þar sem framleiddar eru húðvörur úr lífrænum jurtum, ilmkjarnaolíum og jurtaolíu. Á tilraunastofunni ræður ríkjum Daniel Coaten sem fer fyrir fyrirtækjunum Alkemistinn og Grasakver. Daniel flutti hingað til lands fyrir nokkrum árum ásamt konu sinni, Bryndísi Einarsdóttur, listdanskennara og skólastjóra BRYN Ballett Akademíunnar.

Alkemistinn ehf. á Ásbrú hefur undanfarið verið að framleiða húðverndarvörur til þess að senda til Asíu, Danmörku og bráðlega Bandaríkjanna. Allar vörur Alkemistans innihalda hágæða jurtaefni og úrval af lífrænt vottuðum vörum.

„Við fengum fyrstu stóru pöntunina okkar erlendis frá í fyrra og það var frá Singapúr,“ segir eigandinn og alkemistinn Daniel Coaten. Rúmlega 1.500 vörur voru sendar til Singapúr og náði pöntunin yfir allt úrvalið sem er í boði hjá Alkemistanum. Til dæmis; mismunandi gerðir af húðkremum fyrir líkamann, húðmjólk fyrir karlmenn, serum fyrir andlit, varasalva og margar aðrar lúxus húðverndunarvörur. Vörurnar eru allar búnar til á Ásbrú í húsnæði Alkemistans og eru núna seldar í verslunum í Singapúr og í Kaupmannahöfn í Danmörku.

Bryndís Einarsdóttir, hinn eigandi fyrirtækisins, sér um vöruþróun og hönnun.

„Sem stendur erum við í samningaviðræðum við dreifingaraðila í Bandaríkjunum sem vilja leiða vörur Alkemistans inn á markaðinn þar, sem er mjög spennandi fyrir okkur.“

Daniel Coaten er grasalæknir að mennt og höfundur bókarinnar „Make Your Own Essential Oils and Skin-Care Products“. Í rannsóknarstofu Alkemistans, eimar hann allt sjálfur og undirbýr náttúrulyfin úr plöntum sem eru allar lífrænt vottaðar og koma víðsvegar að úr heiminum þar á meðal Íslandi. Síðan blandar hann ýmsu saman eftir sínum uppskriftum og notar einungis hágæða hráefni sem uppfylla stranga lífræna staðla hjá Vottunarstofunni Tún, ásamt því að innihalda besta vatn í heimi, íslenska vatnið okkar. Til verða sérstakar húðverndunarvörur sem bæði vernda og djúpnæra húðina.

Alkemistinn framleiðir vörulínur fyrir andlit og líkama, fyrir bæði karla og konur. Einnig er vaxandi úrval af vörum sem hægt er að nota fyrir börn.

Daniel framleiðir líka jurtate, sem er vörulína sem kallast „Grasakver“.

„Við höfum selt te á mörgum stöðum á Íslandi í litlum pöntunum og meira að segja sendum við nokkra tepoka til Ísraels um daginn,“ segir Bryndís.

Á Íslandi selur Alkemistinn hinar ýmsu húðverndunarvörur hjá Heimkaup sem er nýtt vöruhús með vefverslun og fyrsta sinnar tegundar á landinu. Þar eru tvær vörur frá Alkemistanum vinsælastar af mörgum öðrum gerðum af snyrtivörum. Fyrir Suðurnesjamenn er auðvelt að nálgast vörurnar í dansverslun Bryn Ballett Akademíunnar sem er í samliggjandi húsnæði á Ásbrú og jafnvel biðja um skoðunarferð í rannsóknarstofu Alkemistans ef að þá langar til þess að kíkja á eina af örfáu lífrænt vottuðu rannsóknarstofum á Íslandi.

Til að skoða vöruúrval Alkemistans skoðið heimasíðu fyrirtækisins á léninu: www.alkemistinn.is og www.grasakver.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024