Guðjón Stefánsson hættir sem framkvæmdastjóri Samkaupa
Sturla Eðvaldsson tekur við starfinu í byrjun september.
Guðjón Stefánsson sem verið hefur framkvæmdastjóri Kaupfélags Suðurnesja og síðar Samkaupa h.f. sl. 18 ár hefur ákveðið að draga sig í hlé frá stjórnun Samkaupa h.f. Guðjón mun hinsvegar áfram starfa fyrir Kaupfélagið og tengd félög.
Stjórn félagsins hefur ráðið Sturlu Eðvarðsson sem framkvæmdastjóra og mun hann koma til starfa í byrjun september. Sturla er ekki ókunnugur Samkaupum, hann starfaði um árabil hjá félaginu, fyrst sem verslunarstjóri í Njarðvík og síðar sem innkaupastjóri og rekstrarstjóri félagsins. Sturla hefur sl. fjögur ár starfað sem framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar í Leifsstöð.
Guðjón segir þessa ákvörðun hafa átt nokkurn aðdraganda og hann standi sáttur upp frá þessu starfi. ” Ég hef átt mjög ánægjuleg ár í þessu starfi, unnið með stórum hópi starfsmanna sem hafa unnið mikið og gott starf fyrir félagið. Miklar og margvíslegar breytingar hafa átt sér stað hjá félaginu og á markaðinum á þessum árum og því hafa þetta verið mjög spennandi tímar. Nú er komið að kaflaskiptum og mér þykir mikilvægt að skipta um vettvang á meðan fullir starfskraftar og starfsvilji eru fyrir hendi. Erfitt ár er að baki í rekstrinum og léttara fyrir fæti nú en áður. Í mínum huga er mjög mikilvægt að félagið haldi áfram að eflast og í raun er það úrslitaatriði varðandi það, hvort í þessu landi verði haldið uppi eðlilegri samkeppni á matvörumarkaði.”
Guðjón segist telja það mikinn feng fyrir Samkaup að fá Sturlu til starfa á ný og óskar honum velfarnaðar í þessu mikilvæga starfi.
Mynd/ Víkurfréttir. Guðjón Stefánsson (innfelld mynd: Sturla Eðvarðsson)