Grill 66 og Lemon mini á nýrri stöð Olís á Fitjum
„Þetta er umbylting á því sem áður var á Básnum, sem var rótgróin stöð og það er örugglega smá eftirsjá hjá fólki. Hér erum við að byrja nýja tíma og horfum spennt til framtíðar með samblandi af veitingaþjónustu og verslun,“ segir Árni Ármannsson, verslunarstjóri hjá Olís á Fitjum. Olís opnaði í síðustu viku stóra og glæsilega þjónustustöð við Fitjabakka 2–4 en á stöðinni er meðal annars að finna Grill 66 og Lemon mini. Opnunartíminn er langur en opið er alla daga vikunnar frá kl. 7 að morgni til kl. 23 að kvöldi.
Nýja þjónustustöð Olís á Fitjum er rúmgóð og björt. Afgreiðslusvæðið er stórt þar sem m.a. er hægt að panta mat af grillinu hjá Grill 66 eða vinsælustu djúsana og samlokurnar af matseðli Lemon mini. Þá er nóg pláss til að setjast niður og njóta matar. Þá er ísvél væntanleg þar sem hægt verður að fá ís með dýfu eða góðan shake.
Það er ekkert ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur þegar kemur að Grill 66, því staðurinn í Njarðvík er sá næst stærsti á landinu. Aðeins Norðlingaholtið er stærra. Árni sagði mikinn metnað lagðan í eldhúsið, sem sé rúmgott og vel tækjum búið. Þá sé matseðillinn „fullorðins“ eins og á öllum hinum stóru Grill 66 stöðunum. Þar eru t.d. á boðstólum árstíðabundnir hamborgarar. Nú er það sumarborgarinn 2023 „Countryside“.
„Þá held ég að Lemon sé kærkomin viðbót í flóruna hér fyrir sunnan. Þetta fer vel af stað og vel tekið í þetta af viðskiptavinum,“ segir Árni.
Nýja stöðin við Fitjabakka er stór vinnustaður sem í dag er að veita hátt í tuttugu manns vinnu á tvískiptum vöktum. Dagurinn byrjar snemma. Staðurinn opnar kl. 7 og þá er búið að baka og verið að smyrja rúnstykki. Einnig eru kleinuhringir, kleinur og margskonar bakkelsi. Kveikt er á grillinu strax við opnun þannig að fólk getur fengið sér egg og beikon fyrir klukkan átta á morgnana ef stemmning er fyrir því. Lokað er kl. 23 á kvöldin en Lemon Mini lokar kl. 21 og Grill 66 kl. 22. Árni segir að starfsfólkið sé að prófa sig áfram með þetta allt en þegar opnunartíminn er langur fer líka mikill tími í þrif og frágang. Það sé kappkostað að hafa staðinn snyrtilegan og heimilislegan. Að opna staðinn svona snemma að morgnu er m.a. hugsað fyrir iðnaðarmenn til að grípa eitthvað í gogginn fyrir vinnudaginn. „Við erum fínn staður á milli bæjarhluta í Reykjanesbæ og fínt að renna hérna við,“ segir Árni.
Mikil uppbygging er framundan í næsta nágrenni við nýju þjónustustöðina. Þar á að fara að byggja nýja verslun BYKO í Reykjanesbæ og einnig líkamsræktarstöð World lass. Framundan er einnig mikil uppbygging við Njarðvíkurhöfn í skipaþjónustklasa sem Árni horfir spenntur til. „Þetta er spennandi svæði að vera á,“ segir hann.
Í þessari viku er verið að auglýsa formlega opnun stöðvarinnar en síðustu vikuna hefur verið það sem menn kalla „mjúka“ opnun þar sem starfsfólkið hefur verið að þjálfa sig fyrir það sem koma skal. Opnunin varð samt ekki mýkri en það að strax í hádeginu á degi tvö var veitingastaðurinn þétt setinn og mikið álag á grillinu. Allt tókst þetta samt vel að sögn Árna og álagið góður skóli fyrir starfsfólkið.
Opnunarhátíð stöðvarinnar verður svo haldin á þjóðhátíðardaginn, 17. júní. Þá verður í boði ís frá Kjörís meðan birgðir endast og opnunartilboð verða bæði á réttum Grill 66 og Lemon mini