Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Gríðarleg tækifæri á Suðurnesjum
Laugardagur 26. janúar 2013 kl. 15:00

Gríðarleg tækifæri á Suðurnesjum

„Það eru gríðarleg tækifæri í ferðaþjónustu á Suðurnesjum en það hefur kannski aðeins vantað upp á samvinnu aðila á svæðinu. Takist að efla hana er hægt að ná í mun stærri bita af kökunni,“ segir Ásbjörn Björgvinsson nýráðinn verkefnisstjóri á Markaðsstofu Suðurnesja.

Eftir breytingar í haust hjá Markaðsstofu Suðurnesja, en þá lét Kristján Pálsson af störfum sem framkvæmdastjóri og hætti einnig sem formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja, var ákveðið að auglýsa eftir nýjum aðila til að stýra markaðsmálum Markaðsstofunnar sem nú er komin undir hatt Heklunnar - Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja. Ásbjörn sinnti til langs tíma starfi framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands og gat sér mjög gott orð fyrir störf sín þar. Nafn Ásbjörns hefur oft komið upp í umræðunni um vinsældir hvalaskoðunar og hvalasafns á Húsavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar Ásbjörn ákvað að breyta til og flutti suður var hann beðinn um að taka að sér verkefnastjórn hjá Markaðsstofu Suðurnesja og stýra málum þar þangað til nýr forstöðumaður kemur til starfa. „Ég kem hér inn til skamms tíma og mun vera nýjum forstöðumanni innan handar í byrjun. Á þessum stutta tíma hef ég hitt nokkra aðila í ferðaþjónustunni á Suðurnesjum og á eftir að hitta fleiri. Það er hugur í fólki hérna. Svo er stefnt að stórum fundi með hagsmunaaðilum í greininni á næstu vikum.“

Hvað er brýnast í ferðaþjónustunni á Suðurnesjum?
„Það eru gríðarleg tækifæri á Suðurnesjum. Þið eruð með þrjá stóra þætti sem allir sem starfa í ferðaþjónustugeiranum myndu vilja hafa. Þar má fyrst nefna Keflavíkurflugvöll, í öðru lagi Bláa lónið, vinsælasta ferðamannastað á Íslandi og í þriðja lagi, nokkuð sem margir hafa litið á ógn en er í raun tækifæri en það er nálægð við höfuðborgina. Auðvitað er mjög auðvelt að nefna fleiri þætti eins og margar náttúruperlur hér á svæðinu.“

Ásbjörn segir að eitt stærsta atriðið sé að fá aðila á Suðurnesjum til að starfa betur saman til hagsbóta fyrir alla og nýta betur vannýtt tækifæri á Suðurnesjum. „Þetta snýst um að fá fleiri ferðamenn á svæðið og fá þá til að dvelja lengur þegar þeir koma. Með góðu samstarfi aðila fyrir norðan hefur það tekist mjög vel. Einfalt atriði í þeim efnum er að þegar ferðalangar koma við á einum stað á svæðinu á að benda þeim á aðra valmöguleika og vísa þeim á aðra áhugaverða staði á sama svæði. Þannig höldum við þeim lengur og allir græða.

Það þarf líka að styrkja söluþáttinn og auka framboðið. Búa til áhugaverða og söluvæna pakka. Nóg er til en við getum gert betur í því að koma svæðinu á framfæri,“ sagði Ásbjörn.