Gott framboð af hráefni á fiskmarkaði mjög mikilvægt
Við Hrannargötu í Keflavík hefur lítið fiskvinnslufyrirtæki vaxið hratt á síðustu misserum, svo hratt að það hefur sprengt utan af sér húsnæðið og veitir rúmlega 50 manns atvinnu. Fyrirtækið heitir AG Seafood og stærsti eigandi þess og framkvæmdastjóri er Arthur Galvez.
Það var í nóvember 2008 sem starfsemi fyrirtækisins hófst með því að fiskvinnsluhús var sett upp í 300 fermetra húsnæði í Grófinni. Framleiðsla á fiskafurðum hófst í febrúar árið 2009, starfsmenn fyrirtækisins voru þá 12 talsins. Húsnæðið í Grófinni varð strax allt of lítið enda fékk fyrirtækið fljúgandi start. Fljótlega var því ráðist í að kaupa fiskvinnsluhús á Hrannargötu. Að sögn Arthurs þá hefur framlegðin af starfseminni alltaf verið látin renna til fyrirtækisins til að byggja það áfram upp. Það hefur aldrei neitt verið tekið út úr fyrirtækinu, enda sé það stefna og markmið að reksturinn sé skuldlaus og að fyrirtækið eigi allan sinn tækjabúnað.
Strax frá upphafi var lögð áhersla á framleiðslu á frystum afurðum í bland við ferskan fisk og nýtir fyrirtækið sér þar nálægð við flugvöllinn og þá staðreynd að frá Suðurnesjum er stutt á fengsæl fiskimið.
Í kaupendum afurða frá AG Seafood eru fjórar megin stoðir. Fyrst má nefna stóran kaupanda í Barcelona á Spáni, sem hefur frá upphafi verið að auka viðskipti sín við AG Seafood og á stóran þátt í vexti fyrirtækisins. Hann hefur einnig heimsótt fyrirtækið tvisvar til þrisvar á ári. AG Seafood er í mikilli sérvinnslu fyrir kaupandann á Spáni. Fyrirtækið framleiðir léttsaltaða þorskhnakka fyrir flottustu veitingastaðina í Kataloníu. Einnig eru framleidd lítil roð- og beinlaus þorskstykki sem eru notuð í salöt á Spáni.
Framhald neðan við mynd...
Annar stór kaupandi er á Bretlandi, nánar tiltekið í London, sem er stærsti kaupandi þeirra á flatfiski. AG Seafood framleiða skarkola, sólkola og langlúru fyrir þetta stóra fyrirtæki sem selur fiskinn í stórmörkuðum eins og Marks & Spencer. Arthur segir að 60-70% af allri flatfiskframleiðslu fyrirtækisins fari til þessa aðila í Bretlandi.
Þriðji þátturinn í framleiðslu AG Seafood er framleiðsla á ferskum fiski sem fer út um allt, bæði Bandaríkjanna og Evrópu. Fjórða stoðin er svo framleiðsla á freðfiski á Bandaríkjamarkað. Þar fyrir utan er fyrirtækið með um tug annarra kaupenda sem kaupa óreglulega afurðir frá fyrirtækinu.
Arthur segir að í dag sé fyrirtækið að framleiða afurðir í um tvo gáma á viku. Þá þarf að taka tillit til þess að fyrirtækið er í mjög fínni framleiðslu sem einnig er mannfrek. Unnið er við frystingu hjá fyrirtækinu allan sólarhringinn og hefur verið fryst allan sólarhringinn síðan í febrúar á þessu ári. Á nóttunni hafa verið fyst ufsa- og þorskflök en á daginn er unnið við frystingu á flatfiski.
Framhald neðan við mynd...
Fyrirtækið skortir ekki kaupendur og getur auðveldlega vaxið. Í dag er það húsnæðisskortur sem háir fyrirtækinu þar sem starfstöðin við Hrannargötu hefur sprengt utan af sér það pláss sem þar er til staðar. Því hefur verið ráðist í kaup á mun stærra húsnæði í Sandgerði, 3600 fermetra frystihúsi, sem nú er verið að standsetja. Gert er ráð fyrir að þar verði opnað fullkomið frystihús í október á þessu ári. Þar verður stærsti vinnslusalurinn 1800 fermetrar á meðan stærsti salurinn hjá fyrirtækinu í dag er um 500 fermetrar. Frystiklefinn í Sandgerði rúmar 400 tonn af afurðum á meðan núverandi klefi rúmar 30-40 tonn.
Með því að opna frystihús í Sandgerði er stefnan að tvöfalda veltu fyrirtækisins. Hjá fyrirtækinu starfa í dag 50-60 manns en geta orðið 100 þegar starfsemin flytur í Sandgerði. Arthur segir að fyrirtækið hafi átt gott samstarf við svæðisskrifstofu Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum sem hefur hjálpað fyrirtækinu að fá fólk þar sem AG Seafood hefur vaxið hratt. Það hefur gengið alveg bærilega að fá fólk og viðhorfið er hægt og rólega að breytast gagnvart fiskvinnslu.
Framtíð fyrirtækisins er óljós í dag og segir Arthur að menn geri sér ekki alveg grein fyrir því hvað gerist þegar fyrirtækið fær miklu meira gólfpláss til að vinna á í Sandgerði. Frekari fullvinnsla afurða er þó eitthvað sem menn dreymi um að vinna og að pakka fiski í neytendapakkningar, tilbúnar í kæliborð og frysta í matvörumörkuðum erlendis. Það sé verðugt markmið að flytja heim til Íslands þá starfsemi sem verið hefur erlendis þegar íslenskt sjávarfang er þýtt þar upp og pakkað í neytendapakkningar. Þetta sé vinna sem vel sé hægt að vinna hér heima og auka þannig virði vörunnar mikið.
Arthur segir fyrirtækið hafa átt gott samstarf við bæði Íslandsbanka og Landsbanka í hröðum vexti AG Seafood. Nú er unnið af krafti við breytingar á frystihúsinu í Sandgerði þar sem settar verða upp þrjár flökunarvélalínur, auk handflökunarlínu. Starfsmannafjöldinn í Sandgerði getur hæglega farið upp í 100 manns og þar yfir, en möguleg ákvörðun stjórnvalda á hausti komandi um að efla íslenska fiskmarkaði mun skera úr um hvort tækifærin verða til staðar eður ei. Þá liggur ekki ennþá fyrir hvað gert verður við húsið við Hrannargötu í Keflavík en hugsanlega verður fyrirtækið áfram með starfsstöð þar með 20 til 30 starfsmönnum.
Arthur segir að það skipti fyrirtæki eins og AG Seafood miklu máli að á fiskmörkuðum sé gott aðgengi að hráefni og að fiskvinnslan hér heima á Íslandi fái að keppa við markaði erlendis um íslenskan fisk og að hann sé ekki fluttur beint út án þess að fiskvinnslustöðvar hér heima fái að bjóða í hráefnið. AG Seafood byggir alla sína vinnslu á hráefni sem keypt er á markaði en einnig hefur fyrirtækið keypt sjófrystan fisk af Þorbirni í Grindavík sem síðan hefur verið notaður þegar framboð á fiski á markaði hefur verið minna.
Flest fiskvinnslufyrirtækin í Reykjanesi, Sandgerði og Garði eru háð fiskmörkuðum. Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda hafa lagt það til að útgerðir séu skyldaðar til að landa a.m.k. hluta af afla sínum inn á markaði til að tryggja betra framboð af hráefni á markaði. Ábyrgð stjórnvalda er mikil þegar kemur að heiðarlegu umhverfi þar sem opin samkeppni fær sín notið, segir Arthur Galvez, framkvæmdastjóri AG Seafood að lokum.
Nýtt húsnæði AG Seafood í Sandgerði. Nú er unnið að breytingum á húsinu og þar mun opna frystihús sem veitir um 100 manns atvinnu í haust.