Gömlu Brynjólfshúsin fá nýtt hlutverk
Gömlu fiskvinnsluhúsin sem á árum áður hýstu Brynjólf hf í Innri-Njarðvík hafa nú fengið nýtt hlutverk en þar hefur fyrirtækið Nýtt hús ehf, komið fyrir tækjabúnaði til helluframleiðslu og er þessa dagana unnið að því að koma verksmiðjunni í gang.
Nýtt hús er einnig með starfsemi í gömlu Rammahúsunum þar sem framleidd eru timbureiningahús undir vörumerkinu Twin Wall.
„Helluframleiðslan er góð viðbót við einingaframleiðsluna en hún gerir okkur kleift að bjóða upp á heildarlausn í nýbyggingum, þ.e. hús með fullfrágenginni lóð. Við höfum selt um 90 hús frá árinu 2002 og verðum varir við síaukna eftirspurn eftir slíkum heildarlausnum. Þess vegna var ákveðið að kaupa þessa verksmiðju“, sagði Arinbjörn Kristinsson í samtali við VF en hann heldur utan um rekstur hellusteypunnar. Arinbjörn segir að fyrirtækið muni skoða það í fyllingu tímans að selja hellur á almennum markaði en það muni til að byrja með einbeita sér að framleiðslu fyrir þau hús sem fyrirtækið er með í framleiðslu.
Nýtt hús framleiðir einnig sökkla fyrir allar gerðir húsa en þeir eru steyptir í mótum og fluttir á byggingastað. Þá framleiðir fyrirtækið einnig kraftsperrur og þakeiningar.
Fyrirtækið hefur vefsvæðið www.nytthus.is
Mynd: Arinbjörn Kristinsson stýrir málum í hellusteypunni hjá Nýju húsi.
VF-mynd:elg