Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Góður mórall og gott að vinna hjá Fríhöfninni
Föstudagur 25. maí 2012 kl. 18:00

Góður mórall og gott að vinna hjá Fríhöfninni



„Það er margt sem spilar inn í það að Fríhöfnin sé talið fyrirmyndarfyrirtæki, segir Sóley Ragnarsdóttir, starfsmannastjóri Fríhafnarinnar en hún var valin eitt af fyrirmyndarfyrirtækjum ársins í könnunin var gerð meðal félagsmanna SFR á starfsskilyrðum þeirra og líðan á vinnustað á dögunum.

,,Reglulegir fundir, fréttabréf frá framkvæmdastjóra með helstu upplýsingum, aukin þátttaka starfsmanna við ákvarðanatökur, sýnileiki stjórnenda, Fríhafnarskólinn, innra net starfsmanna og öflugt starfsmannafélag. Sóley segir virkilega gaman í vinnunni, stöðugt sé verið að brjóta upp rútínuna og fólk hefur gaman af því sem við erum að gera.  „Skrifstofan getur leyft sér oftar að hafa ýmsa daga, svo sem hattadaga, kjóladaga, ljótu bola daga og þar fram eftir götunum. Svo eru dagar sem allir geta tekið þátt í eins og öskudagur.  Fríhöfnin hefur borið af innan flugstöðvarinnar hvað þetta varðar þar sem allir starfsmenn eru í búningum,“ segir Sóley. „Svo má nefna regluleg starfsmannasamtöl ásamt mikilli samheldni hjá fólkinu. Hjá Fríhöfninni er tiltölulega hár starfsaldur og lág starfsmannavelta.“

Guðbjörg Magnúsdóttir, aðstoðarvaktstjóri á A vaktinni tekur í sama streng og Sóley.

„Starfsmenn hafa sjálfir tekið ábyrgð á því að vinna saman sem hópur. Umfang og breytileiki verslana hefur aukist svo mikið, að fólk hefur orðið að aðlagast breyttum áherslum.“ Hún segir gott að vinna hjá Fríhöfninni vegna þess að allir starfsmenn beri virðingu fyrir öllum störfum og deila ábyrgðinni. Hún segir m.a. það að vera sóttur upp að dyrum og keyrður heim að loknum vinnudegi vera eitthvað sem fólkið kann vel að meta, sem og t.d. fríðindi eins og frítt í líkamsrækt og sund. „Annars væri ekki þessi hái starfsaldur hér í Fríhöfninni ef ekki væri góður mórall og gott að vinna,“ segir Guðbjörg að lokum.

Guðbjörg Magnúsdóttir aðstoðarvaktstjóri og að ofan er Sóley Ragnarsdóttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024