Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Föstudagur 26. mars 2004 kl. 17:16

Góð afkoma Leifsstöðvar og bjartsýni

Afkoma Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. var góð á árinu 2003 og bjartsýni ríkir um rekstur félagins í nánustu framtíð. Fram kom í máli Gísla Guðmundssonar, stjórnarformanns, og Höskuldar Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra, á aðalfundi félagsins í Eldborg í Svartsengi í gær, fimmtudaginn 25. mars, að liðið ár hefði einkennst af auknum umsvifum og aukinni framlegð af rekstri. Hagnaður eftir skatta var 547 milljónir króna en var 839 milljónir króna árið 2002. Afkoma félagsins var samt í raun betri 2003 en 2002 vegna þess að á fyrra árinu stafaði stór hluti hagnaðarins af hagstæðri gengisþróun en á síðara árinu myndaðist hagnaðurinn af auknum rekstrartekjum og meiri framlegð af rekstri.

Fjárhagslega sterkt félag
Gísli Guðmundsson segir í ávarpi stjórnarformanns í ársskýrslu 2003 að miklar breytingar hafi orðið á innra og ytra umhverfi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. frá því félagið tók til starfa árið 2000.
,,Félagið er fjárhagslega sterkt og hefur náð að uppfylla þær kröfur og væntingar sem gerðar voru við stofnun þess. Fjármunamyndun rekstrar hefur aukist jafnt og þétt og flestar kennitölur úr rekstri og efnahag hafa gjörbreyst til batnaðar. Langtímalán félagsins hafa lækkað verulega og voru í árslok 2003 um 6,9 milljarðar króna en voru í árslok 2001 um 8,7 milljarðar króna. Flugstöðin er því mun betur í stakk búin en áður til að takast á við nýjar fjárfestingar og þjóna þeim langtímalánum sem á henni hvíla.”

Stjórnarkjör, arðgreiðsla
Í stjórn félagsins voru kjörnir:
Gísli Guðmundsson, stjórnarformaður
Stefán Þórarinsson, framkvæmdastjóri
Ellert Eiríksson, fyrrverandi bæjarstjóri
Haraldur Johannessen, hagfræðingur
Eysteinn Jónsson, rekstarverkfræðingur.

Í varastjórn voru kjörin:

Helga Sigrún Harðardóttir, ráðgjafi
Magnea Guðmundsdóttir, markaðsstjóri.

Eina breytingin frá því í fyrri stjórn er sú að Eysteinn og Helga Sigrún hafa sætaskipti. Hann var í fyrri varastjórn en tekur nú sæti í aðalstjórn, hún var í fyrri aðalstjórn en tekur nú sæti í varastjórn. Aðrir stjórnarmenn voru endurkjörnir. Aðalfundur samþykkti að greiddur yrði 15% arður í ríkissjóð að upphæð 375 milljónir króna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024