Góð afkoma 2012 Isavia í fyrra
Aðalfundur Isavia var haldinn í dag, fimmtudaginn 2. maí, en félagið annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla og flugleiðsöguþjónustu í landinu og er leiðandi fyrirtæki í ferðaþjónustu.
Góð afkoma 2012
Umtalsverð aukning varð á umsvifum Isavia á síðastliðnu ári. Tekjur félagsins jukust um 11,4%, úr 16.511 milljónum króna í 18.397 milljónir árið 2012. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var 3,8 milljarðar króna eða um 20% af tekjum. Hagnaður eftir skatta nam um 738 milljónir króna. Mest tekjuaukning varð í flugvallarekstri, um 21%. Verslunartekjur jukust um 13% og tekjur vegna flugleiðsöguþjónustu um rúmlega 7%. Tekjur Isavia vegna þjónustusamnings við Innanríkisráðuneytið lækkuðu um 17% milli ára.
Heildarafkoma ársins 2012 var 738 milljónir króna sem er um 134 milljón króna betri afkoma en árið 2011. Heildareignir Isavia í árslok 2012 eru bókfærðar á 33.390 milljónir króna. Þar af eru fastafjármunir 28.073 milljónir. Nettóskuldir félagsins hafa lækkað um 553 milljónir króna milli ára en eiginfjárhlutfall félagsins nam 34,9% í árslok en var 24,6% við stofnun árið 2010.
Leiðandi í ferðaþjónustu
Isavia er leiðandi fyrirtæki í ferðaþjónustu og aðili að Markaðsátakinu Inspired by Iceland, Iceland Naturally og flugklasanum Air66N á Norðurlandi. í ársbyrjun 2012 var tekið upp hvatakerfi fyrir Keflavíkurflugvöll sem miðar að því að styðja við flug utan háannatíma. Hvatakerfið hefur sannað gildi sitt og verið mikill styrkur í viðleitni félagsins til þess að fjölga farþegum og áfangastöðum. Alls héldu sex félög uppi áætlunarflugi í Keflavíkurflugvelli í vetur og farþegaaukning jókst um hátt í fjórðung.
Félagið undirbýr aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli vegna farþegaaukningar svo tryggja megi góða þjónustu. Gert er ráð fyrir a.m.k. 4-5 milljarða fjárfestingu næstu tvö ár í uppbyggingu á flugvöllum, flugstöðvum og ekki síst endurnýjun á tæknibúnaði flugleiðsöguþjónustu. Fyrir dyrum standa víðtækar tæknibreytingar í stjórnkerfi flugumferðar með upptöku á svonefndu ADS-B flugstjórnarkerfi sem byggir á sjálfvirkum tilkynningum frá staðsetningarkerfi flugvéla í staða ratsjáreftirlits frá jörðu.
Félagið annast resktur innanlandsflugvallakerfisins samkvæmt þjónustusamningi við innanríkisráðuneytið en fjárveiting til þess hefur farið minnkandi á undanförnum árum. Nýlega var undirritað samkomulag milli borgarstjórans í Reykjavík og innanríkisráðherra um endurbætur á flugafgreiðslumannvirkjum á Reykjavíkurflugvelli og fleira sem mun gera Isavia kleift að reka flugvöllinn með umtalsvert bættri aðstöðu fyrir notendur.
Framsækin dótturfélög
Dótturfélög Isavia eru Fríhöfnin og hugbúnaðarfyrirtækið Tern Systems. Miklar breytingar og umbætur standa yfir hjá Fríhöfninni um þessar mundir og mun fyrirtækið ásamt verslunum fá nýja ásýnd í sumar. Fyrirhugað er að opna nýja glæsilega verslun í flugstöðinni og verið er að endurnýja komuverslunina. Fríhöfnin fékk á síðastliðnu ári Starfsmenntaviðurkenningu SAF, ásamt því að hafa verið með Isavia kjörið fjölskylduvænt fyrirtæki í Reykjanesbæ, sem getur ekki annað en talist mjög góður árangur þar sem ekki er auðvelt að samræma svo vel sé stóran vinnustað sem starfar allan sólarhringinn, alla daga ársins og öfluga fjölskyldustefnu. Fríhöfnin var einnig valið fyrirmyndarfyrirtæki á árinu en það eru starfsmenn sjálfir sem taka þátt í slíkri könnun á vegum SFR og VR. Framkvæmdastjóri er Ásta Dís Óladóttir.
Tern Systems hefur í yfir 25 ár hannað og framleitt hugbúnað til flugumferðarstjórnar og þjálfunar flugumferðarstjóra og er með kerfi uppsett og í notkun hér á landi og víða í Evrópu, Asíu og Afríku. Hjá fyrirtækinu starfa 40 manns auk þess sem mikið af þekkingu og reynslu er sótt til móðurfélagsins eftir þörfum og verkefnum. Framkvæmdastjóri er Tómas Davíð Þorsteinsson.
Gott rekstrarútlit
Áætlað er að samanlögð velta Isavia samstæðunnar verði um 20 milljarðar á árinu 2013, og er um 30% í erlendri mynt. Gert er ráð fyrir sambærilegri afkomu á árinu 2013 og var árið 2012. Ekki er gert ráð fyrir viðbótarlántökum á árinu þrátt fyrir miklar fjárfestingar. Forstjóri Isavia er Björn Óli Hauksson.
Stjórn félagsins
Fjármálaráðherra fer með eignarhald félagsins fyrir hönd ríkissjóðs. Í stjórn félagsins voru kosin Arnbjörg Sveinsdóttir, Jón Norðfjörð, Ólöf Kristín Sveinsdóttir, Ragnar Óskarsson og Þórólfur Árnason. Ásta Rut Jónasdóttir gekk úr stjórninni og var Ólöf Kristín kosin í hennar stað.
Varastjórn var endurkosin: Jóhanna Harpa Árnadóttir, Hjörtur M. Guðbjartsson, Ólafur Sveinsson, Sigrún Pálsdóttir, og Sigurbjörn Trausti Vilhjálmsson.
Samþykkt var að ráðstafa hagnaði ársins með þeim hætti að hann legðist við eigið fé félagsins.