Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Gleraugnaverslun Keflavíkur 20 ára
Föstudagur 6. september 2002 kl. 08:24

Gleraugnaverslun Keflavíkur 20 ára

Árið 1982 stofnuðu sjóntækjafræðingarnir Kjartan Kristjánsson og Pétur Christiansen Gleraugnaverslun Keflavíkur og fagnar verslunin því 20 ára starfsafmæli á þessu ári. Gleraugnaverslunin í Keflavík var fyrsta búðin sem þeir félagar settu á stofn, en í dag eru reknar sjö gleraugnaverslanir undir þeirra stjórn: "Þegar við opnuðum verslunina í Keflavík fyrir 20 árum síðan voru Suðurnesin nægilega stórt markaðssvæði og ári eftir opnunina í Keflavík náðum við samningum við Varnarliðið um opnun verslunar á varnarsvæðinu", segir Kjartan. Verslunin á varnarsvæðinu hlaut nafnið Optical Studio og var þessi verslun upphafið að mikilli útrás fyrirtækisins. Kjartan segir að það hafi oft komið upp pínleg staða gagnvart erlendum birgjum við að bera fram orðið "gleraugnaverslun: "Optical Studio hentar mjög vel sem nafn á gleraugnaverslun og nafninu hefur verið tekið vel. Nafnið er alþjóðlegt og það geta allir borið það fram og við lendum ekki í vandræðum með erlenda birgja", segir Kjartan og hlær.Samningurinn við varnarliðið var mikil lyftistöng fyrir fyrirtækið á þessum tíma. Fjöldið varnarliðsmanna var verulegur og gengi krónunnar sífellt að falla, en allar tekjur verslunarinnar var í dollurum: "Þó svo að verulega hafi dregið úr þessum viðskiptum vegna fækkunar varnarliðsmanna, þá höfum við reglulega endurnýjað samninga okkar við varnarliðið", segir Kjartan.

Árið 1992 skelltu þeir félagar sér í samkeppnina á höfuðborgarsvæðinu með opnun Gleraugnaverslunarinnar í Mjódd, en samkeppnisaðilarnar voru með verslanir sínar á miðborgarsvæðinu. Kjartan segir að frá því þeir opnuðu í Mjóddinni hafi það verslunarsvæði sífellt verið að stækka: "Verslunarkjarninn í Mjódd er sterkur og hefur dafnað stöðugt frá því verslunin var opnuð."

Það urðu kaflaskil í markaðshlutdeild verslana Optical Studio þegar fyrirtækið fékk einkaumboð fyrir Air Titanium gleraugnaumgjarðirnar: "Títangleraugnaumgjarðirnar eru mikil bylting og sérstaklega hönnunin, en það eru engar skrúfur eða lóðningar notaðar við gerð hennar og umgjörðin vegur aðeins 2,8 gr. Títaníumvírbútar eru sveigðir og beygðir og mynda loks umgjörðina sjálfa, en umgjörðin er svo sterk að framleiðandinn, danska fyrirtækið Lindberg Optik veitir tveggja ára ábyrgð á umgjörðinni. Slík ábyrgð þekkist ekki hjá öðrum framleiðendum," segir Kjartan.

Árið 1998 opnaði ný verslun í flugstöð Leifs Eiríkssonar sem ber nafnið Optical Studio Duty Free Store og segir Kjartan að það hafi algjörlega verið rennt blint í sjóinn með opnun sérsverslunar af þessu tagi, en verslunin hafi ekki átt sér neina fyrirmynd í flugstöðum erlendis: "Það eru töluvert aðrar áherslur í þessari verslun, miðað við verslanir okkar innanlands því áhersla á merkjavöru í sólgleraugum er áberandi. Við reynum að sjálfsögðu að ná til þeirra erlendu ferðamanna sem um flugstöðina fara, en þeir eru um 70% þeirra farþega sem um "transit svæðið" fara. Viðskiptavinurinn þarf einungis að bíða 10 til 15 mínútur eftir sérsmíði á algengustu styrkleikagleraugum, en með þessu erum við að fara algjörlega nýja leið í verslun með gleraugu samkvæmt lyfseðli," segir Kjartan

Í Smáralind hafa tvær nýjar verslanir verið opnaðar. Önnur þeirra, Optical Studio RX er hefðbundin gleraugnaverslun, en Optical Studio Sól verður aftur á móti einskónar sól- og sportgleraugnadeild: "Þessi verslun er vissulega tilraun hjá okkur, en þar bjóðum við uppá fylgihluti eins og bakpoka og sportfatnað frá þekktum sól- og sportgleraugnaframleiðendum eins og Oakley. Hingað til hafa sólgleraugu ekki verið mjög almenn á Íslandi ef miðað er við notkun þeirra í útlöndum, en nú eru breyttir tímar því nú eru gleraugu orðin hluti af heildarmyndinni í klæðaburði og tísku. Við Íslendingar erum svo sannarlega engir eftirbátar annarra þjóða í þeim efnum, nema síður sé. Hér á landi er sólin svo lágt á lofti að hún smýgur inn í augnbotnana og það má færa rök fyrir því að það sé jafnvel meira áríðandi að gæta að sólgleraugnanotkun hér á landi heldur en sunnar á hnettinum. Í þeim löndum dugar til að mynda að vera með húfu og skyggni til að varna því að sólargeislarnir fari inn í augnbotnana vegna þess hversu sólin er hátt á lofti. það hefur líka orðið hugarfarsbreyting hjá fólki, en það gerir nú meiri kröfur til sjónarinnar og er meira meðvitað um að vernda hana," segir Kjartan.
Meðal þeirra vörumerkja sem Optical Studio verslanirnar bjóða upp á er m.a.: Cucci, Diesel, Christian Dior, Dolce & Gabbana/D&G, DKNY, Calvin Klein, Tommy Hilfiger, L.A. Eyeworks, Ray Ban, Oakley, Nike, Ralph Lauren, French Connection, Air Titanium o.fl.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024