Glæsihótel á leynistað á Suðurnesjum
Smíði ferðamannaþorps, með stóru hóteli og tugum smáhýsa, er í undirbúningi á einum hrjóstrugasta og fáfarnasta stað Suðurnesja. Stefnt er að því að fjögurra milljarða króna framkvæmdir hefjist í byrjun næsta árs. Frá þessu var greint í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.
Svæðið er vestan við Keflavíkurflugvöll, við Ósa, milli Hafna og Sandgerðis, og var bannsvæði meðan herstöðin var starfrækt en varð ekki vel aðgengilegt almenningi fyrr en nýr hringvegur opnaðist fyrir fjórum árum.
Aðilar í byggingargeira á Suðurnesjum hafa stofnað félagið Ósa um verkefnið en því stýrir Viðar Már Aðalsteinsson. Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 segir Viðar að þeir byggi hugmyndina á reynslu af erlendum ferðamönnum sem sjái og upplifi hafið, kraftinn og gnauðið við Íslandsstrendur.
Við svokallaða Þórshöfn, þar sem herinn rak áður leynilega kafbátahlustunarstöð, hafa Kanon arkitektar teiknað 60 herbergja fjögurra stjarna hótel ásamt sextíu smáhýsum, einnig upphitaða baðlaug í fjöruborðinu og fuglaskoðunarhús. Ósamenn vonast til að hefja framkvæmdir upp úr næstu áramótum og að fyrstu gestirnir komi á svæðið ári síðar, árið 2014.
Áætlað er að uppbyggingin kosti hátt í fjóra milljarða króna en Ósar eru í viðræðum við bæði innlenda og erlenda fjárfesta. Viðar segir þá bjartsýnni í dag en fyrir hálfum mánuði um að áætlanir gangi upp og segir þetta líta allt vel út.
Mynd Ellert Grétarsson: Suðurnesjabrimið heillar