Gistinóttum fækkaði um 11% á Suðurnesjum
Gistinætur á hótelum í maí voru um 139.700 samanborið við 120.500 í maí í fyrra. Þetta er 15% aukning á milli ára. Þrátt fyrir aukningu á landsvísu þá fækkaði gistinóttum á Suðurnesjum um 11% miðað við maí í fyrra.
Á vefsíðu Hagstofunnar segir að gistinætur erlendra gesta voru um 82% af heildarfjölda gistinátta en gistinóttum þeirra fjölgaði um 17% miðað við maí í fyrra. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði einnig um 8% á sama tímabili.
Gistinætur á hótelum á höfuðborgarsvæðinu voru um 102.500 í maí, en það er fjölgun um tæp 20% frá fyrra ári. Á Norðurlandi voru um 9.400 gistinætur á hótelum í maí sem er um 18,5% aukning miðað við maí í fyrra. Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um 18,5%, voru 5000 en 4.200 í maí í fyrra.
Gistinætur á Suðurlandi voru tæplega 13.100 sem er 4,5% aukning milli ára. Í öðrum landshlutum fækkaði gistinóttum milli ára. Á Suðurnesjum voru 4.800 gistinætur sem jafngildir 11% fækkun milli ára. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða voru 4.400 gistinætur sem jafngildir 7,5% fækkun milli ára.
Gistinætur á hótelum fyrstu fimm mánuði ársins voru 568.900 en voru 460.600 fyrir sama tímabil árið 2011. Gistinóttum erlendra gesta hefur fjölgað um 28% samanborið við sama tímabil 2011. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 10% fyrir sama tímabil.