Geysir vill kaupa í Filippseyjum
Geysir Green Energy í Reykjanesbæ hefur tekið höndum saman við Reykjavík Energy Invest um kaup á 40% hlut í filippseyska jarðvarmafyrirtækinu PNOC-EDC (Philippine National Oil Company - Energy Development Corporation). Hluturinn er nú í eigu filippseyskra stjórnvalda, en Geysir á þegar 0,8% hlut í þessu öðru stærsta jarðhitafyrirtæki heims. Söluferlið hófst í vikunni. Viðskiptablaðið segir frá þessu í dag.
Hluturinn er verðlagður á 50-62 milljarða og gæti jafnvel verið enn hærra, en Viðskiptablaðið segir að 24 aðilar hafi lýst yfir áhuga á hlutnum.
Meðal kaupa Geysis frá stofnun fyritækisins í janúar má nefna 20% hlut í Western Geopower fyrir 600 milljónir króna og kaup á Jarðborunum ásamt hlut í Enex , fyrir samtals tæplega 18 milljarða króna. Þá keypti Geysir 32% hlut í Hitaveitu Suðurnesja fyrir 16 milljarða. Alls hefur Geysir því fjárfest fyrir um það bil 40 milljarða frá því að félagið var sett á fót.