Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Geysir Green kaupir Jarðboranir
Miðvikudagur 1. ágúst 2007 kl. 13:29

Geysir Green kaupir Jarðboranir

Fjárfestingafélagið Atorka hefur selt Geysi Green Energy allan hlut sinn í Jarðborunum í gengum félagið Renewable Energy Resources. Söluverðið nemur ríflega 14 miljörðum króna. Ríkisútvarpið greinir frá þessu í dag.

Jarðboranir, sem sérhæfa sig í nýtingu jarðvarma og hafa vaxið mikið á síðustu árum, eru nú stærsta fyrirtækið á sínu sviði á alþjóðavettvangi. Með kaupunum verður Geysir Green umsvifamikið bæði í leit og sölu á jarðvarma.

Atorka kaupir jafnframt ríflega 30% hlut í Geysi Green og er þar með orðið kjölfestufjárfestir í félaginu. Aðrir hluthafar í Geysi Green eru FL Group, sem er stærsti hluthafinn í félaginu, Glitnir, VGK Hönnun, Reykjanesbær og Bar Holding. Atorka innleysir með sölunni ríflega 11 miljarða króna hagnað fyrir skatta og hyggst nýta féð til nýrra fjárfestinga eftir því sem segir í tilkynningu frá félaginu.

Geysir Green eignaðist nýverið um þriðjungs hlut í Hitaveitu Suðurnesja, eftir mikla leikfléttu. Síðast í fyrradag var sagt frá kaupum félagsins á 20% hlutafjár í kanadíska jarðhitafyrirtækinu Western GeoPower Corporation sem vinnur að jarðvarmavirkjun í Kaliforníu. Kaupverðið var um 600 miljónir króna.
Samhliða kaupunum á Jarðborunum bætir Geysir Green við sig 16% hlut í Enex og er stærsti hluthafinn í fyrirtækinu sem starfar meðal annars í El Salvador, Ungverjalandi, Bandaríkjunum og Kína.

Frétt af www.ruv.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024