Geymslur ehf. opna útibú í Reykjanesbæ
Fyrirtækið Geymslur ehf. hefur opnað útibú við Iðavelli í Reykjanesbæ. Þar geta fyrirtæki og einstaklingar leigt geymslur af ýmsum stærðum. Að sögn Ómars Jóhannssonar, framkvæmdastjóra, hafa leigutakar aðgang að geymslum sínum allan sólarhringinn, allan ársins hring. Hjá Geymslum er til dæmis hægt að geyma búslóðir, dánarbú, bókhaldsgögn, skjöl, lager fyrir fyrirtæki, efni og áhöld verktaka og vetrarvörur eins og skíði og vetrardekk.
Slíkar geymslur eru vinsælt fyrirbæri í Bandaríkjunum og víðar og voru Geymslur ehf. fyrsta fyrirtækið til að bjóða upp á slíka þjónustu hér á landi. „Við fylgjum ströngustu stöðlum um hreinlæti, öryggi, aðgang og innréttingar. Einkageymsla er húsnæði sem þú leigir í sérhæfðu geymsluhúsnæði. Húsnæðið er sérstaklega innréttað til að uppfylla strangar öryggiskröfur varðandi bruna- og innbrotavarnir, auk þess að vera vaktaðar með öryggismyndavélum sem tengdar eru stjórnstöð Securitas.”