Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Gestastofa Grænu smiðju ORF Líftækni formlega opnuð
Miðvikudagur 9. október 2019 kl. 16:34

Gestastofa Grænu smiðju ORF Líftækni formlega opnuð

Opnuð hefur verið gestastofa í Grænu smiðju ORF Líftækni í Grindavík. Græna smiðjan er vistvænt 2000 fermetra hátækni gróðurhús sem nýtir jarðvarma, íslenskan vikur og hreint, íslenskt vatn til þess að rækta byggplöntur, en hún getur hýst allt að 130 þúsund byggplöntur á sama tíma.

ORF Líftækni hefur þróað tækni til að framleiða sérvirk prótein í byggi, en aðferðin er afrakstur áratuga vísinda- og þróunarstarfs. Prótein þessi eru notuð sem innihaldsefni í BIOEFFECT húðvörur fyrirtækisins, seld til læknisfræðilegra rannsókna og nýtt í önnur þróunarverkefni fyrirtækisins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

BIOEFFECT húðvörulínan fagnar tíu ára afmæli á næsta ári og hefur á undanförnum árum tryggt sig í sessi sem eitt þekktasta íslenska vörumerkið á alþjóðlegum neytendamarkaði. Vörurnar fást nú í leiðandi verslunum, flugfélögum, heilsulindum og vefverslunum um allan heim. Vörurnar innihalda EGF (Epidermal Growth Factor) sem er einn mikilvægasti frumuvaki húðarinnar og hvetur til framleiðslu á kollageni og elastíni svo húðin haldist heilbrigð, þétt og ungleg.

Gestastofan mun styðja enn frekar undir landkynningaráhrif BIOEFFECT en þar verður boðið upp á skipulagðar skoðunarferðir um gróðurhúsið ásamt kynningu á því hvernig EGF verður til og á sögu BIOEFFECT.

„Með gestastofunni verður til nýr valkostur fyrir ferðamenn og aðra á svæðinu, bæði til þess að kynna sér vistvænt gróðurhús sem nýtir jarðvarma til framleiðslu og afrakstur íslensks hugvits og nýsköpunar. Við erum virkilega stolt af Grænu smiðjunni og hlökkum til að kynna hana frekar fyrir bæði erlendum ferðamönnum og Íslendingum,“ segir Frosti Ólafsson, forstjóri ORF Líftækni.

Gestastofan var formlega opnuð af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í gær að viðstöddu fjölmenni.

Sjónvarp Víkurfrétta var við opnunina og fjallar nánar um málið í Suðurnesjamagasíni vikunnar.