Gera sér ferð í hollustuna í Grindavík
Veitingastaðurinn Hjá Höllu í Grindavík býður upp á heilsusamlegan mat og hefur gott orðspor hans borist víða á stuttum tíma. Eigandi staðarins, hún Halla María Svansdóttir, hefur lengi haft brennandi áhuga á hollustu. „Eftir að ég eignaðist börnin mín fór ég mikið að hugsa um mataræði og hvað ég væri að gefa þeim að borða og vildi gera það vel.“ Halla rekur veitingastaðinn í Grindavík og sendir á hverjum virkjum degi um tvö hundruð matarsendingar til vinnustaða.
Tíu viðskiptavinir í upphafi
Draumur Höllu var alltaf að opna lítið kaffihús. Hún byrjaði með reksturinn heima hjá sér fyrir fjórum árum og hélt þar matreiðslunámskeið. Svo fór hún að senda matarpoka til fólks í vinnuna. „Við völdum okkur tíu einstaklinga sem unnu á þannig stöðum að það myndi spyrjast þar út hvernig mat við bjóðum upp á. Boltinn byrjaði því að rúlla mjög hægt og rólega. Svo komu nokkrir til viðbótar og þannig koll af kolli og þannig hefur þetta vaxið,“ segir hún. Í dag fara um tvö hundruð matarsendingar frá Höllu til ýmissa vinnustaða í Grindavík, víðar um Suðurnesin og á höfuðborgarsvæðinu. Vinnudagurinn hefst því eldsnemma morguns hjá Höllu og samstarfsfólki hennar. Auk þess koma margir á veitingastaðinn, flestir í hádeginu. Halla segir stundum koma rólega daga inn á milli á veitingastaðnum en að yfirleitt sé feikinóg að gera. Fyrr í vetur var veitingastaðurinn fluttur í rúmgott húsnæði en hafði áður við í húsnæði gömlu hafnarvigtarinnar í Grindavík.
Grindvíkingar hafa tekið hollustunni fagnandi og eru að sögn Höllu tíðir gestir á veitingastaðnum. „Hingað koma líka margir úr Reykjanesbæ og svo er fólk af höfuðborgarsvæðinu sem gerir sér ferðir hingað. Um daginn kom til okkar fólk frá Flúðum.“ Fjölmargir ferðamenn heimsækja Grindavík dag hvern og kíkja margir þeirra við hjá Höllu. „Ferðamenn hafa verið duglegir að gúggla og finna staðinn því við höfum ekki auglýst neitt.“
Eplapítsan alltaf vinsæl
Stefnan hjá Höllu er að vera alltaf á heilsusamlegri og lífrænni línu. „Það er þó ekki hægt alla leið en við gerum okkar besta,“ segir hún. Eplapítsa hefur verið vinsælust á veitingastaðnum og segir Halla kókosmöndlukjúkling sömuleiðis alltaf vinsælan, auk súpu og brauðs. Halla segir það ekki erfitt að útbúa bragðgóðan mat sem er líka hollur. „Það er þó alltaf viss kúnst að útbúa mat í svona miklu magni og senda út. Það er engan veginn hægt að bera saman það sem fólk fær sent til sín í fyrirtækin og það sem boðið er upp á hér á veitingastaðnum. Það er algjörlega önnur upplifun að borða hér í salnum.“
Stunda jóga í vinnunni
Halla og samstarfsfólk hennar stundar alltaf jóga saman í vinnunni einu sinni í viku. Þá kemur til þeirra jógakennari og þau gera öll fimmtán til tuttugu mínútna hlé á vinnunni. Halla kynntist jóga þegar hún fór með jógahópum í ferðir út á land og sá um matseldina. „Þá fór ég stundum í jóga með þeim á morgnana og fannst það æðislegt. Ég hef aldrei gefið mér tíma til að stunda jóga sjálf en nú get ég í það minnsta gert smá jóga einu sinni í viku.“
Halla segir mjög gott að teygja úr sér og slaka á í annasamri vinnu. „Maður er allan daginn að vinna með axlirnar ofan í borðinu og að horfa niður. Það er gott að opna fyrir orkustöðvarnar og anda aðeins inn. Þá finnur maður hvað maður er rosalega stirður í öxlum og mjöðmum af því að standa allan daginn. Það er alltaf yndislegt þegar hver jógatími er búinn.“