geoSilica og Mjólkursamsalan í samstarf
- um vöruþróun á mjólkurvörum með kísilsteinefni frá geoSilica
geoSilica og Mjólkursamsalan hafa ákveðið að hefja samstarf um vöruþróun á mjólkurvörum með kísilsteinefni frá geoSilica. Kísilsteinefni gegnir mikilvægu hlutverki í steinefnasöfnun beina og að viðhalda steinefnaþéttleika þeirra og mjólkin, sem inniheldur m.a. kalk og prótein, er mikilvæg fyrir vöxt og viðhald beina. Þess vegna er mjög áhugavert að skoða möguleika á að blanda þessum hráefnum saman í spennandi mjólkurvörur.
geoSilica er sprotafyrirtæki sem hefur það að markmiði að framleiða hágæða kísilríkar heilsuvörur úr jarðhitavatni Hellisheiðarvirkjunar. Fyrirtækið var stofnað árið 2012 og kom fyrsta varan á markað árið 2015, hágæða 100% náttúrulegt íslenskt kísilsteinefni í vökvaformi tilbúið til inntöku. Kísilsteinefnið hefur margvíslega heilsusamlega virkni, getur m.a. stuðlað að fyrirbyggingu á beinþynningu, örvun kollagenmyndunar og bættri nýtingu kalks og annarra steinefna.
Mjólkursamsalan er leiðandi fyrirtæki í matvælaiðnaði á Íslandi. Hlutverk fyrirtækisins er að taka við mjólk frá eigendum sínum og umbreyta í hollar og góðar mjólkurafurðir í takt við þarfir neytenda.
„Við erum mjög spennt fyrir samstarfinu enda er MS leiðandi fyrirtæki á sínu sviði og við höfum það sameiginlega markmið að bæta heilsu almennings“, segir Fida Abu Libdeh framkvæmdastjóri geoSilica. „Rannsóknir hafa sýnt sterk sambönd á milli kísils og kalks og teljum við því nauðsynlegt að búa til vörur sem innihalda bæði efnin. Ekki skemmir það fyrir að hráefnin eru íslensk. MS er gott dæmi um fyrirtæki sem styður við nýsköpun og vöruþróun á íslenskum markaði. Ég á tengingu við MS síðan ég flutti hingað til Íslands og er það skemmtileg tilviljun að skrifa undir samstarfsamning við fyrirtækið í dag!” bætir Fida við.
„Það er áhugavert fyrir okkur sem hefðbundið matvælafyrirtæki að tengjast svona öflugu sprotafyrirtæki eins og geoSilica,“ segir Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs MS. „Við trúum því að kísilsteinefnið passi vel saman með ákveðnum mjólkurvörum og gefi þeim mikilvæga heilsubætandi eiginleika og það verður án efa bæði fróðlegt og gaman að vinna með geoSilica að því að þróa slíkar vörur,“ segir Jón Axel að lokum.